Fara í efni
Amtsbókasafnið

Fegurðin felst í fjölbreytileikanum

Myndir: Skapti Hallgrímsson

SÖFNIN OKKAR – XXXVI

Frá Smámunasafni Sverris Hermannssonar í Eyjafjarðarsveit_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum. Smámunasafnið bætist nú í hópinn, það er strangt til tekið ekki í bænum en er nú í umsjá Minjasafnsina á Akureyri. 

Hvað eru margir hlutir í kringum þig? Hvað ætli séu margir hlutir á einu heimili? Fjöldi gripa á Smámunasafni Sverris Hermannssonar í Sólgarði í Eyjafjarðarsveit er á reiki en sjálfur taldi hann þá vera um 30.000 talsins.

Sverrir var Innbæingur, fæddur 30. mars 1928 en lést 12. júlí 2008. Hann var húsasmíðameistari að mennt og sérhæfði sig í að gera upp gömul hús og fékk margvíslegar og verðskuldaðar viðurkenningar fyrir ómetanleg störf sín á því sviði. Hann fór meðal annars höndum um mörgu af elstu og sögufrægustu húsum á Akureyri, auk þess að taka þátt í endurgerð og viðhaldi kirkna í Eyjafirði. Sverrir átti tengingu við gamla Saurbæjarhreppi þar sem Sólgarður er, en hann var þar vinnumaður ungur að árum.

Sverrir henti engu og sá verðmæti í öllu. Þannig sankaðist að honum eitt og annað sem hann kom haganlega fyrir í bakhúsi við heimili sitt í Aðalstræti 38 þar til hann gaf Eyjafjarðarsveit safn sitt árið 2003 með því skilyrði að undir það fengist rúmgott húsnæði. Það skilyrði var ekki sett af ástæðulausu.

Gripirnir sem Sverrir safnaði eða safnaðist að honum eru af ýmsum toga, verkfæri, notaðir blýantar, grammófónnálar, heimilistæki, … Kannski er auðveldara að segja þetta svona: „Ef þú finnur hlutinn ekki á Smámunasafninu þá var hann líklega aldrei framleiddur!“

Einna eftirtektarverðastir eru hlutirnir sem Sverrir bjó um á listfengan hátt. Blýantsstubbar, naglar og smíðaáhöld fá nýja vídd. Fegurðin felst í natninni og fagurfræðinni í uppsetningu Sverris á þeim.

Sjón er því sögu ríkari og ástæða til að gera sér ferð fram í Sólgarð á Smámunasafn Sverris.

Safnið og Saurbæjarkirkja eru opin frá miðvikudegi til sunnudags frá kl. 13.00-17.00. 

Listaverk Beate Stormo – kýrin Edda, sá magnaði járnskúlptur, stendur á hól steinsnar norðan við Sólgarð og því öllum sýnileg allan sólarhringinn. Þótt fólk hafi skoðað Smámunasafnið áður en Edda kom í sveitina er bíltúr fram í Sólgarð vel þess virði til að skoða kýrina.

Til vinstri er ydd – það sem flysjast af blýanti þegar hann er yddaður, og hægra megin hár af Sverri Hermannssyni þegar hann fór í klippingu hjá Ingva rakara árið 1996, þá 68 ára.

„Nokkrir“ eldspýtustokkar.

Þarna er m.a. servíetta sem stuðningsmenn Gunnars Thoroddsen létu útbúa fyrir forsetakosningarnar árið 1968 og fermingarservíetta séra Pálma Matthíassonar.