Fara í efni
Amtsbókasafnið

„Ég nýt þess að leika mér“

Tumi smaladrengur er ein af ævintýrapersónunum í garði Hreins. Myndir: Haraldur Ingólfsson.

Oddeyrargatan er annað og meira en bara þrætuepli íbúa við bæjaryfirvöld um umferðarhraða og aðgerðir til að hægja á og minnka umferð um götuna. Í garðinum við hús númer 17 í Oddeyrargötunni er ævintýraheimur - eða ævintýragaður Hreins Halldórssonar. Segja má um garðinn hans Hreins það sama og sagt var um samkomuhúsið í mynd Stuðmanna, hann er ótrúlega stór að innan!

Ævintýragarðurinn opinn alla daga í sumar

Hreinn hefur ákveðið hafa garðinn opinn alla daga í sumar kl. 10-20. „Opnunin á garðinum gekk vel og var umgengni gesta til fyrirmyndar. Ég hef því ákveðið að endurtaka þessa opnun og verður garðurinn sem ég kalla Ævintýragarðinn opinn alla daga í sumar,“ segir Hreinn.

„Það er draumur hvers manns að skapa og miðla með öðrum. Með það í huga hef ég á síðustu árum skapað hin ýmsu verk sem ég staðset svo í garðinum við heimili mitt. Ég hef fundið fyrir áhuga ferðamanna og ekki síður Íslendinga á að skoða verkin mín og varð það til þess að á síðasta sumri opnaði ég aðgang að garðinum mínum fyrir almenning,“ segir Hreinn um þennan undraheim sem hann hefur skapað. 

Aðgangur er ókeypis eins og ávallt hefur verið og myndatökur leyfðar. Við flest verkin en stuttur texti bæði á íslensku og ensku með nafni verksins og úr hvaða ævintýri það er tekið.

Garðurinn er einkagalleríið mitt, lifandi undir berum himni. Þar er lofthæðin endalaus og lýsingin síbreytileg. Ég get fullyrt að það eru ekki mörg gallerí á Íslandi þar sem búast má við rigningu eða jafnvel snjókomu og roki þegar gengið er um galleríið og verkin skoðuð. Oftast er þó glampandi sól, logn og þægilegur útihiti eins og Akureyri er þekkt fyrir!

Verkin má flest rekja til íslenskra bókmennta og ævintýra en síðustu ár hefur hugur minn og listsköpun snúið að sígildum ævintýrum sem eru mér minnisstæð frá bernskuárum mínum.

Verkin eru heimakær og vilja ekki yfirgefa garðinn en þó hafa sum þeirra sýnt sig á á Handverkshátíðinni í Eyjafjarðarsveit og í sýningarrými Amtsbókasafnsins á Akureyri.

Í sumar hafa bæst við fimm nettar dömur í þjóðlegum fatnaði. Systurnar frá Stapa kalla þær sig, en samkvæmt mínum upplýsingum voru þær bara þrjár en hjá mér eru þær fimm! Þær líta frekar fínt á sig og ætla að halda sig í sumar inn í gróðurhúsinu en eru þó alltaf til í að spjalla við gesti.


Hreinn Halldórsson hefur skapað ævintýrapersónur í garðinum að Oddeyrargötu 17 í um 14 ár. 

Hreinn smíðar ævintýrapersónurnar sínar úr alls konar hráefni, nýju og notuðu. Í stuttri heimsókn blaðamanns og spjalli við Hrein kom til dæmis fram að mottur úr Rúmfatalagernum voru orðnar að svuntum kvenna. Í skrauti og fatnaði ævintýrapersónanna má finna krana, skápahandföng, gömul verkfæri, mikið af timbri og auðvitað málningu, bara til að nefna dæmi.

Lóðin að Oddeyrargötu 17 er óvenjulega í laginu, nær langt aftur fyrir húsið og er fremur mjó, og helgast það meðal annars af legu Bjarmastígsins sem er næsta gata fyrir neðan og liggur í bogadreginni línu. Ævintýragarður er sannarlega réttnefni því aðkoman að húsinu er nánast eins og að venjulegum húsum, meira að segja frekar þröngt framan við húsið, engin gangsétt þeim megin Oddeyrargötunnar. Vegfarendur sjá að vísu nokkrar styttur fremst í garðinum þegar gengið er eða ekið um Oddeyrargötuna, en svo ef þú þorir að stíga inn á lóðina og fara á bakvið hús opnast ævintýraheimur Hreins Halldórssonar. Það er eitthvað sem þú þarft að upplifa á staðnum.

Sjón er sögu ríkari og myndir segja ekki alltaf meira en þúsund orð. Hér er auðvitað mælt með því að fara á staðinn og upplifa með eigin augum, taka inn ævintýrin og njóta sköpunargleði Hreins. Hún er einmitt það sem liggur að baki þessum ævintýraheimi sem hann hefur skapað. Hreinn er hvorki menntaður í smíðum né listum. Ævintýragarðurinn sprettur bara af þörf til að skapa. 


Ævintýrið um Þyrnirós er vel þekkt og þarf ekkert að útskýra þessa gullslegnu skó sem hún og prinsinn halda á.


Þessi heilsar gestum þegar komið er inn í garðinn. 


Nokkuð er um að fararstjórar komi með hópa í garðinn til Hreins. Honum fannst vandræðalegt þegar fólk var að rétta að honum gjöfum eða peningum. Að ráði vinar setti hann upp lítinn kassa fyrir frjáls framlög, fyrst aðeins með útskýringu á ensku, en hefur núna bætt þessum íslenska texta við.