Fara í efni
Aldís Kara Bergsdóttir

„Lítil ættarsaga“ úr knattspyrnuheiminum

Jóhannes Geir Sigurgeirsson, bóndi á Öngulsstöðum í Eyjafjarðarsveit og fyrrverandi alþingismaður, birti bráðskemmtilegan pistil á Facebook síðu sinni á dögunum í tilefni þess að Þorvaldur Örlygsson var kjörinn formaður Knattspyrnusambands Íslands.

Um er að ræða samantekt um fótboltaiðkun afkomenda Sigurgeirs Sigurðssonar á Öngulsstöðum, langafa Jóhannesar Geirs, og tveggja eiginkvenna hans. Þorvaldur formaður KSÍ er einn þeirra. Jóhannes stillir upp úrvalsliði afkomenda langafa hans, en í þeim hópi eru nokkrir mjög þekktir leikmenn.

Mundi sóma sér vel í efstu deild

Jóhannes Geir birti árið 2021 í Eyvindi, „sveitablaði okkar í Eyjafjarðarsveit,“ eins og hann orðar það, grein sem var fyrst og fremst um knattspyrnuiðkun í Öngulsstaðahreppi hinum forna „en í lokin birti ég þessa samantekt um fótboltaiðkun afkomenda Sigurgeirs Sigurðssonar langafa míns á Öngulsstöðum og eiginkvenna hans; Katrínar og Helgu. Einhversstaðar í skrifunum er vitnað til þess sem hér er ekki birt en það á ekki að koma að sök en liðið sem stillt er upp mundi sóma sér vel í efstu deild í dag - með Þorvald sem fyrirliða.“

Jóhannes Geir gaf Akureyri.net góðfúslegt leyfi til þess að birta þessa skemmtilegu grein.

Bræðurnir Ormarr og Þorvaldur Örlygssynir sumarið 1989 þegar KA varð Íslandsmeistari. Til vinstri er Almarr sonur þess fyrrnefnda. Móðir Ormars og Þorvaldar er Bryndís Ármann Þorvalsdóttir, afkomandi Sigurgeirs á Öngulsstöðum.
„Að lokum er hér lítil ættarsaga sem tengist fótboltaiðkun í sveitinni. Sigurgeir Sigurðsson langafi minn fæddur 1852 flutti með foreldrum sínum í Öngulsstaði 1863. Hann var tvíkvæntur: Fyrri kona hans var Katrín Lilja Arnfinnsdóttir en hún lést ung frá tveim börnum. Seinni kona hans var Helga Halldórsdóttir frá Jódísarstöðum og áttu þau sex börn og komust fimm þeirra upp. Ekki fer neinum sögum af fótboltaiðkun Sigurgeirs en afkomendur þeirra Sigurgeirs, Katrínar og Helgu hafa mörg hver haslað sér völl á knattspyrnuvellinum,“ skrifar Jóhannes Geir og heldur áfram:
 
„Ég gerði mér til gamans að stilla upp liði afkomenda þeirra sem hafa getið sér gott orð á vellinum. Hér nota ég þá liðsuppstillingu sem var við líði á fyrri gullaldartíma fótboltaiðkunar í hreppnum eða þriggja manna vörn með tvo varnarsinnaða miðjumenn og fimm frammi. Liðinu er stillt upp þannig að landsliðssæti, í yngri og eldri landsliðum, gefur sjálfkrafa sæti en öðrum er úthlutað að nokkru út frá þeirri sögu sem hér er sögð af knattspyrnuiðkun í Öngulsstaðahreppi.“
 
 
Knattspyrnusystkini. Aldís Marta Sigurðardóttir, sem varð Íslandsmeistari með Þór/KA, Kristján Örn Sigurðsson sem varð Íslandsmeistari með KR og Lárus Orri Sigurðsson. Bræðurnir voru landsliðsmenn og léku báðir lengi sem atvinnumenn erlendis. Foreldrar þeirra eru Valdís Ármann Þorvaldsdóttir, einn afkomenda Sigurgeirs á Öngulsstöðum, og Sigurður heitinn Lárusson, sem lék með ÍBA og Þór og varð síðan margfaldur Íslands- og bikarmeistari með ÍA og landsliðsmaður.
Hann segir einnig horft til þess að í úrvalsliðinu séu fulltrúar sem flestra kynslóða og þar af leiðandi tímaskeiða. Þau sem þarna eru tilgreind hafa iðkað knattspyrnu hér í sveitinni, á Akureyri, Akranesi, Reykjavík, Noregi og Englandi í tæpa öld. Getið er hversu margir ættliðir eru til Sigurgeirs.
 
Í liðinu eru afkomendur Sigurlínu og Sigurðar barna Sigurðar og Katrínar. Þess má geta fyrir ættfræðiáhugafólk að Sigurlína giftist Jóni Emil Tómassyni og af þeim er kominn mikill ættbogi á Akureyri sem almennt gengur undir nafninu Tommararnir. Einnig eru í liðinu afkomendur Halldórs og Garðars sona Sigurgeirs og Helgu. Vissulega tóku afkomendur annarra barna Sigurgeirs og Helgu sem upp komust þeirra Kristins og Katrínar þátt í fótbolta í sveitinni en samkeppnin er hörð um sæti í úrvalsliði Öngulsstaða. Valdimar Sigurgeirsson, mjólkurbílsstjóri, sonur Sigurgeirs og Helgu eignaðist ekki afkomendur.
 
 
Fimmti ættliður - Aron Kristófer Lárusson, sonur Lárusar Orra Sigurðssonar, og systkinin Nökkvi og Jakobína Hjörvarsbörn. Móðir þeirra er Sunna Hlín Jóhannesdóttir, dóttir Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar, höfundar greinarinnar.
Úrvalslið afkomenda Sigurgeirs, Katrínar og Helgu á Öngulsstöðum:
 
  • Markmaður: Friðrik Snorrason (3. liður) - Ársól/Árroðinn – UMSE
  • Vinstri bakvörður: Jakobína Hjörvarsdóttir 5. l - Þór/KA – Landslið Íslands 16 ára
  • Miðvörður: Lárus Orri Sigurðsson 4. l – Þór – WBA – Landslið Íslands
  • Hægri bakvörður: Kristján Örn Sigurðsson 4. l – Þór - KA - Brann – Landslið Íslands
  • Varnarmiðjumaður: Þorvaldur Örlygsson 4. l - KA - Nottingham Forest – Landslið Íslands
  • Varnarmiðjumaður: Valdimar Sigurgeirsson 3. l - Árroðinn – UMSE
  • Hægri útherji: Sigurgeir Halldórsson 2. l - Ároðinn – UMSE
  • Hægri innherji : Almar Ormarsson 5. l - KA - Fram – Valur – KR
  • Framherji: Garðar Hallgrímsson 3. l - Árroðinn – UMSE
  • Vinstri innherji: Nökkvi Hjörvarsson 5. l - Þór – Landslið Íslands 15 ára
  • Vinstri útherji: Ormar Örlygsson 4. l - KA - Fram – Landslið Íslands
Varamenn:
 
  • Mark: Jóhannes Geir Sigurgeirsson 3. l - Ársól/Árroðinn
  • Útileikmenn: Helgi Baldursson 3. l - Ársól/Árroðinn - UMSE
  • Sigurgeir Garðarsson 2. l - Árroðinn
  • Unnsteinn Sigurgeirsson 3. l, Árroðinn - UMSE
  • Finnur Sigurgeirsson 3. l - Árroðinn - UMSE
  • Aldís Marta Sigurðardóttir 4. l - Þór/KA
  • Aron Kristófer Lárusson 5. l - Þór - ÍA - KR
  • Viktor Örlygur Andrason 5. l - Víkingur
  • Þorvaldur Jónsson 5. l - KA
„Glöggir lesendur geta séð að ég hef sett sjálfan mig sem varamarkvörð í liðið þrátt fyrir hraklegan feril eins og áður hefur komið fram. Það kemur til af því að af öllum þeim sem hafa náð langt í iðkun íþróttarinnar fann ég einungis Friðrik í Hjarðarhaga sem náði einhverjum frama í þessari stöðu. Það var því ekki öðrum til að dreifa sem hafa staðið málvaktina í skráðri keppni í greininni eins og Eyjafjarðarmótið vissulega var. Þetta er því í stíl við innkomu mína í liða UMSE á sínum tíma; notaður þar til annar frambærilegri mætir á svæðið,“ skrifar Jóhannes Geir Sigurgeirsson að lokum.
 
 
Jóhannes Geir Sigurgeirsson, bóndi, fyrrverandi alþingismaður og varamarkvörður!