Fara í efni
Aldís Kara Bergsdóttir

Leggja til breytingu á húsnæðisúrræðum

Mynd: Haraldur Ingólfsson

Lagt hefur verið til að átta íbúðum í tveimur húsum við Gránufélagsgötu, sem nú eru nýttar sem úrræði fyrir fólk með fjölþættan geð- og vímuefnavanda, verði breytt í úrræði sem þjónar einstaklingum sem náð hafa ákveðnum stöðugleika í lífi sínu og eru annaðhvort að nota vímuefni í lágmarki, án vandkvæða eða alfarið hættir notkun þeirra – eins konar áfangaheimili.

Þetta kemur fram í minnisblaði sem lagt var fyrir velferðarráð Akureyrarbæjar í lok marsmánaðar. „Húsnæðisúrræðin í Gránufélagsgötu 26 og 28 er orðin verulega þung og flókin viðureignar“, segir meðal annars í minnisblaðinu. Inntakið í minnisblaðinu er að úrræði fyrir þennan hóp einstaklinga séu ekki heppileg í því formi sem um ræðir í húsunum tveimur við Gránufélagsgötuna. Æskilegt sé að fara í endurskipulagningu á húsnæðisúrræðum þeirra sem glíma við þennan fjölþætta vanda.

Upplifa vaxandi óöryggi og ógn í starfi

Starfsfólk og nágrannar íbúða í Gránufélagsgötu 26 og 28 upplifa vaxandi óöryggi, meðal annars „vegna aukinna átaka á milli íbúa og gesta sem ítrekað enda með afskiptum lögreglu og sjúkraliða.“ Umfangsmikil blönduð vímuefnanotkun fylgir úrræðunum, bæði meðal íbúa og gesta. Afskipti lögreglu og sjúkraliða hafa orðið tíðari en áður vegna átaka og ofbeldis á milli íbúa og gesta, innbrota, eignarspjalla og hávaða.

Grænu húsin fyrir miðri mynd eru Gránufélagsgjata 26 og 28 sem um ræðir í umfjölluninni um húsnæðisúrræði fyrir fólk með fjölþættan geð- og vímuefnavanda. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Fyrir hefur komið að starfsfólk sem annast eftirlit og endurbætur í húsunum í Gránufélagsgötu og í smáhúsum við Dvergaholt upplifi vaxandi óöryggi og ógn í starfi og er í auknum mæli farið að neita að fara í aðstæður sem eru of þungbærar, að því er fram kemur í minnisblaðinu. 

Forstöðumaður félagsþjónustu og félagsráðgjafi hafa fundað með nágrönnum íbúðanna í Gránufélagsgötunni til að heyra þeirra upplifun af ástandinu.

Hugmyndafræði um húsnæði fyrst

Félagsþjónusta Akureyrarbæjar hefur stefnuna „Húsnæði fyrst“ að leiðarljósi þar sem markmiðið er að veita heimilislausum einstaklingum öruggt og varanlegt húsnæði án skilyrða um að þeir þurfi fyrst að leysa önnur vandamál, eins og vímuefnavanda eða geðræn veikindi.

Í þeim anda er stöðugt húsnæði grunnforsenda fyrir meiri lífsgæðum og félagslegri aðlögun. Aðstoð og stuðningur eru veitt samhliða, en húsnæðið er þó ekki háð meðferðarárangri eða öðrum skilyrðum.

Um þetta segir í áðurnefndu minnisblaði: „Til þess að þessi hugmyndafræði nái fram að ganga verðum við að tryggja aðgengi að húsnæði. Til þess hentar best öruggt, sjálfstætt og dreift húsnæði, þar sem einstaklingar fá sína eigin íbúð frekar en að vera í stofnanalegu eða samnýttu húsnæði. Íbúðirnar eru því sjálfstæðar þar sem einstaklingurinn hefur sitt eigið heimili með langtímaleigusamningi sem veitir öryggi. Nálægt þjónustu, samgöngum og tækifærum til samfélagsþáttöku. Það tryggir að einstaklingarnir hafi raunveruleg tækfifæri til að byggja sér nýtt líf á eigin forsendum.“

Tvenns konar úrræði í boði, vantar millistig

Eins og skipulagið er í dag eru eingöngu tvenns konar húsnæðisúrræði í boði, annars vegar félagslegt leiguhúsnæði og hins vegar sértækt húsnæðisúrræði fyrir heimilislausa og fólk sem glímir við geð- og/eða vímuefnavanda. 

Höfundar minnisblaðsins, Halldóra Kristín Hauksdóttir, forstöðumaður félagsþjónustu, Ísak Herner Konráðsson félagsráðgjafi og Karólína Gunnarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, telja æskilegt að byggja smáhús á ólíkum svæðum, bæði nokkuð afskekkt frá íbúðabyggð sem og önnur nær íbúðabyggð. Þá segja þau nauðsynlegt að finna nýjan samastað fyrir fólk sem nú býr í Gránufélagsgötu og leggja til að byggð verði átta til tíu smáhús fyrir þann hóp og að þau verði á tveimur til þremur svæðum. Einnig benda þau á að byggja þurfi smáhús fyrir íbúana í Glerárholti áður en það hús verði selt.

Sautján sértæk húsnæðisúrræði

Fram kemur í áðurnefndu minnisblaði að á Akureyri séu 12-15 húsnæðislausir einstaklingar sem ættu heima á áfangaheimili eða í smáhúsi. Af þeim séu sjö til níu virkir á biðlista og af þeim ættu sex eða sjö heima á áfangaheimili og einn til tveir í smáhúsum. Að auki eru fimm til sjö einstaklingar ekki virkir á biðlista en þó í þjónustu hjá félagsþjónustunni.


Fjögur smáhús eru við Dvergaholt, tvö voru tekin í notkun 2020 og tvö árið 2023. Mynd: akureyri.is.

Akureyrarbær hefur í dag yfir að ráða 17 sértækum húsnæðisúrræðum fyrir fólk með fjölþættan geð- og vímuefnavanda. Þar af eru átta í Gránufélagsgötu í tveimur húsum, þrjú í Glerárholti og fjögur í smáhúsunum við Dvergaholt.  Glerárholt er hús við samnefnda götu sem liggur upp frá Óseyri niður við smábátahöfnina.

Leggja til endurskipulagningu á húsnæðisúrræðum

Varðandi stöðu mála í Gránufélagsgötunni og Glerárholti segir í minnisblaðinu að ljóst sé að margar íbúðir saman sé ekki heppileg lausn á húsnæðisvanda einstaklinga í þessum hópi og því æskilegt að fara í endurskipulagninu á húsnæðisúrræðum þeirra sem glíma við fjölþættan vanda af þessu tagi. „Markmiðið er að skapa skilvirkari úrræði sem gagnast betur bæði skjólstæðingum og samfélaginu í heild.“

Bent er á að vöntun á ákveðnu „millistigi“ fyrir þjónustuléttari einstaklinga sem ekki geta stöðu sinnar vegna verið í almennu félagslegu húsænði, en heyra ekki undir umræddan þyngri og flóknari hóp. Hér er átt við einhvers konar áfangaheimili og gætu húsin við Gránufélagsgötuna nýst í þessu skyni. 


Svæðin sem minnst er á í umfjölluninni. 1. Gránufélagsgata 26 og 28. 2. Glerárholt. 3. Smáhús við Dvergaholt. 4. Grænhóll/Síðubraut. 5. Baldursnes. 6. Hlíðarfjallsvegur. Kortið er skjáskot af map.is/akureyri.

Margs konar ávinningur 

Brýnt er að hraða uppbyggingu smáhúsanna og að fjölga þeim, segja höfundar minnisblaðsins. Margs konar ávinningur muni hljótast af endurskipulagningunni sem þau leggja til. Íbúar sem nú búa í Gránufélagsgötu fengju smáhús sem henta betur þörfum þeirra og færri húsnæðisúrræði yrðu á hverju svæði. Nýir íbúar í áfangaheimili í Gránufélagsgötu fengju raunverulegt tækifæri til að sanna sig og undirbúa sig fyrir sjálfstæðara líf og fyrir nágranna yrði minni áreitni og notkun vímuefna í hverfinu og öryggi myndi aukast að sama skapi.

Þá yrði minni þörf fyrir afskipti lögreglu og sjúkraliða þar sem einstaklingar fengju úrræði sem henti betur þörfum þeirra. Einnig yrði skýrari aðgreining á úrræðum sem auki skilvirkni þjónustunnar og stuðli að betri árangri fyrir íbúa.

Þrjú ný svæði smáhúsa í vinnslu

Akureyri.net greindi frá því á dögunum að skipulagsráð hafi fjallað um tillögu að breyttu deiliskipulagi við Síðubraut hjá Grænhóli þar sem ætlunin er að skipuleggja lóðir undir fimm smáhús, ætluð áðurnefndum hópi fólks með fjölþættan geð- og vímuefnavanda. Bæjarstjórn hefur samþykkt að umrædd tillaga að breytingu á skipulagi verði auglýst.

Þá er einnig í bígerð að skipuleggja slíkar lóðir á tveimur öðrum stöðum í bænum, annars vegar við Baldursnes, norðaustan við timbursölu BYKO, og hins vegar við Hlíðarfjallsveg, nokkurn veginn þar sem Akureyringar fengu að njóta áramótabrenna um árabil.