Fara í efni
Aldís Kara Bergsdóttir

Játningar tæknispekúlants – Þegar Hofstadter's lögmálið sannast

GERVIGREIND - 8

Kæru lesendur.

Ég verð að játa á mig mistök. Í síðasta pistli lofaði ég umfjöllun um hagnýtar leiðbeiningar fyrir notkun spunagreindar í menntun. Mér láðist þó að taka tillit til Hofstadter's lögmálsins sem segir:

„Það tekur allt lengri tíma en þú býst við, jafnvel þegar þú tekur tillit til Hofstadter's lögmálsins.“

Undanfarnar vikur hafa stórfyrirtækin keppt um að kynna nýjar og byltingarkenndar lausnir í gervigreind hvert öðru hraðar. Þetta veldur því að það sem ég hef sett niður á blað verður úrelt jafnharðan, sem ég verð að viðurkenna að er alveg nokkuð streituvaldandi.

Ég gerði einfaldlega ekki ráð fyrir því hvað ég yrði lengi að vinna úr öllum þessum nýju upplýsingum og tækninýjungum. Í stað þess að reyna að henda einhverju saman í flýti verð ég að viðurkenna mig sigraðan í þetta sinn. Tæknin hefur hlaupið fram úr mér og mínum áætlunum.

Þetta undirstrikar enn og aftur þá áskorun sem við stöndum frammi fyrir í menntakerfinu og samfélaginu í heild. Hvernig getum við undirbúið nemendur, kennara og almenning fyrir heim sem breytist hraðar en við getum skrifað um hann? Þessi spurning snertir ekki bara skólakerfið heldur alla þætti samfélagsins - frá vinnumarkaði til stjórnsýslu, frá heilbrigðiskerfinu til fjölmiðla.

Í næsta pistli (sem ég lofa að skrifa þegar ég hef náð andanum) mun ég reyna að takast á við þær áskoranir sem fylgja því að skrifa um tækni sem er í stöðugri þróun. Ég er ekki viss um nákvæmlega hvert efnið mun leiða mig en eitt er víst: Við þurfum að læra að vera sveigjanleg og tileinka okkur hraða aðlögunarhæfni í heimi þar sem eini fastinn er stöðug þróun.

Hvernig við náum því takmarki er einmitt það sem ég er og mun reyna að varpa ljósi á þó að leiðin þangað sé enn óljós. Það er í lagi að viðurkenna þegar við náum ekki að fylgja hraðanum. Það er jú mannlegt að gera áætlanir sem standast ekki og það verða svo sem engin fórnarlömb í þessu klúðri mínu.

Pistlinum fylgir samt sem áður mynd búin til af Midjourney. Ég var að skoða þekkingu GPT-4o á íslenskum bókmenntum og fékk lýsingu á Gunnari á Hlíðarenda og Hallgerði langbrók úr Njáls sögu. Þessi lýsing var síðan notuð til að skapa myndina sem fylgir pistlinum.

Þar til næst, hafið það gott og munið að það er í lagi að taka sér pásu til að ná andanum í þessum síbreytilega heimi tækninnar!

Magnús Smári Smárason er leiðsögumaður um gervigreind