Fara í efni
Aldís Kara Bergsdóttir

Glæsilegt gullmark Jóhanns Más í sigri SA

Gullmarksgleði! Jóhann Már Leifsson snýr sér að áhorfendastúkunni og fagnar með tilþrifum eftir að hann skoraði gullmark og tryggði sigur SA þegar 41 sekúnda var eftir af framlengingunni. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Karlalið SA í íshokkí vann lið Skautafélags Hafnarfjarðar (SFH) í framlengdri markaveislu í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld. Lokatölur urðu 6-5. Jóhann Már Leifsson skoraði gullmark og tryggði sigurinn þegar 41 sekúnda var eftir af framlengingunni. 

SA menn voru sterkara liðið í leiknum, eins og í gær, en markvörður SFH, Radek Haas, var þeim erfiður, varði til dæmis 52 í fyrri leiknum og svipað var uppi á teningnum í kvöld, SA-menn með mun fleiri skot að marki, en það telur ekki ef pökkurinn fer ekki í markið. Þrátt fyrir að mæta til leiks með einni línu færra en Akureyringar náðu Hafnfirðingar að gera heimamönnum lífið leitt, en bæði lið auðvitað á sama tíma að skemmta fjölmörgum áhorfendum sem mættu í Skautahöllina í kvöld.

Jóhann Már Leifsson þrumar að marki SFH, sekúndubroti síðar söng pökkurinn í markinu og sigur SA var í höfn.

Fámennir Hafnfirðingar náðu forystunni

Hafnfirðingar náðu forystunni skömmu fyrir miðja fyrstu lotuna þegar Ævar Arngrímsson komst einn á móti markmanni eftir sókn SA-manna og kláraði af öryggi. Jóhann Már Leifsson jafnaði leikinn alveg í lok fyrsta leikhlutans með skoti af stuttu færi eftir að langskot Una Blöndal var varið. Tvö mörk frá Baltasar Hjálmarssyni og Unnari Hafberg Rúnarssyni á innan við mínútu í upphafi annarrar lotu komu SA í góða stöðu. SA-menn nýttu þarna vel tækifærið þegar þeir voru einum fleiri vegna refsinga á lið SFH. Björn Róbert Sigurðarson minnkaði muninn um miðja aðra lotuna eftir skyndisókn SFH þar sem þeir komust þrír á móti einum. 

Björn Róbert Sigurðarson gerði tvö mörk fyrir SFH í kvöld og átti að auki tvær stoðsendingar.

Gestirnir úr Hafnarfirðinun nýttu sín tækifæri vel og náðu að jafna í 3-3 snemma í þriðja leikhlutanum. Andri Freyr Sverrisson svaraði fyrir Akureyringa skömmu síðar, staðan orðin 4-3. Heiðar Kristveigarson jafnaði svo leikinn aftur með skoti af stuttu færi um miðjan leikhlutann. Akureyringar sóttu ákaft á næstu mínútum, en enn einu sinni nýttu gestirnir skyndisókn og Styrmir Maack kom SFH yfir í 5-4 þegar innan við fimm mínútur lifðu leiks.

Þegar innan við mínúta var eftir tóku SA-menn markvörðinn út af og fjölguðu í sókninni. Jóhann Már vann uppkast, pökkurinn barst til Una Steins Blöndal sem skoraði og jafnaði í 5-5. Þannig var staðan þegar leiktíminn rann út og þá gripið til framlengingar þar sem fækkað er um tvo í hvoru liði og spilað þrír gegn þremur útileikmönnum. Þar er það einfaldlega gullmark sem gildir, ef öðru hvoru liðinu tekst að skora á fimm mínútum.

Uni Steinn Blöndal Sigurðarson bíður skælbrosandi eftir fagnandi félögum sínum eftir að hann jafnaði 5-5 þegar tæp mínúta var eftir.

SA nýtti liðsmuninn, SFH ekki

Snemma í framlengingunni fengu SA-menn á sig dóm og gestirnir fengu fjórða mann inn á svellið, en Akureyringar áfram með þrjá útileikmenn. Þeir náðu þó ekki að nýta liðsmuninn. Skömmu eftir að aftur varð jafnt í liðunum fengu gestirnir refsingu og spiluðu því einum færri síðustu 102 sekúndurnar. En þó ekki því þegar rúm 41 sekúnda var eftir af leiknum tók Jóhann Már Leifsson málin í sínar hendur, sótti pökkinn aftur til markmanns, skautaði með hann framhjá varnarmanni SFH og negldi í markið framhjá hinum tveimur og markverðinum, gullmark og sigur í höfn þar sem SA fær tvö stig og SFH eitt. 

Jóhann Már kórónaði þar góðan leik, en hann skoraði tvö mörk og átti tvær stoðsendingar. Hér má sjá gullmark Jóhanns Más í framlengingunni. 

SA styrkti stöðu sína í efsta sæti Toppdeildarinnar, er nú með 29 stig eftir 13 leiki, en SR kemur næst með 23 stig, þá Fjölnir með 18 og SFH með 11.

SA

Mörk/stoðsendingar: Jóhann Már Leifsson 2/2, Uni Steinn Blöndal 1/1, Baltasar Hjálmarsson 1/1, Unnar Hafberg Rúnarsson 1/0, Andri Freyr Sverrisson 1/0, Gunnar Aðalgeir Arason 0/1, Atli Sveinsson 0/1, Róbert Hafberg 0/1, Pétur Sigurðsson 0/1, Heiðar Gauti Jóhannsson 0/1.
Varin skot: Róbert Steingrímsson 19 (79,2%).
Refsimínútur: 26.

Radek Haas, markvörður SHF, var SA-ingum erfiður bæði í dag og í gær. Hér bíður hann þess að Hafþór Sigrúnarson skjóti; pökkurinn endaði ekki í markinu í þetta skipti.

SFH

Mörk/stoðsendingar: Björn Róbert Sigurðarson 2/2, Ævar Arngrímsson 1/1, Heiðar Kristveigarson 1/0,  Styrmir Maack 1/0, Jerzy Gus 0/1, Taylor Swallow 0/1.
Varin skot: Radek Haas 39 (86,7%).
Refsimínútur: 12.

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og má sjá upptöku af leiknum í spilaranum hér að neðan.