Fara í efni
Aldís Kara Bergsdóttir

Engar upplýsingar frá Skútabergi

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra lýsir yfir vonbrigðum með að áform Skútabergs um tiltekt á athafnasvæði fyrirtækisins að Moldhaugahálsi hafi ekki gengið eftir. Myndin var tekin í júní. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra hefur gert þá kröfu til Skútabergs vegna athafnasvæðis á Moldhaugahálsi að tekið verði rækilega til á svæðinu og þeim hlutum sem ekki hafa varðveislugildi verði komið í viðeigandi förgun. Jafnframt óskar nefndin eftir skriflegri úrbótaáætlun frá fyrirtækinu fyrir 1. október þar sem fram komi hvenær og hvernig verði orðið við kröfum nefndarinnar um úrbætur.

Fram kemur í fundargerð nefndarinnar nú í september að engar upplýsingar hafi borist frá fyrirtækinu um framvindu mála. Að mati nefndarinnar hafi umgengni á svæðinu ekki lagast að undanförnu og svæðið því enn verulegt lýti í umhverfinu. Heilbrigðisnefndin lýsir yfir vonbrigðum með að áform fyrirtækisins um tiltekt á svæðinu hafi ekki gengið eftir.


Mynd af athafnasvæði Skútabergs að Moldhaugahálsi, tekin í júní. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Akureyri.net greindi frá því í júní þegar heilbrigðisnefndin óskaði eftir upplýsingum um hvernig framkvæmdum við tiltekt á svæðinu að Moldhaugahálsi og gerð varanlegs geymslusvæðis miðaði. Í svari Skútabergs í vor kom fram að framkvæmdir við gerð geymslusvæðis gætu hafist þegar hönnunargögn hafi verið samþykkt af skipulagsnefnd og jafnframt að tekið yrði til á svæðinu í sumar.