Fara í efni
Aldís Kara Bergsdóttir

Bæta 250 fermetrum við húsnæðið í Sunnuhlíð

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra og Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Mynd: stjornarrad.is.

Heilsugæslustöðin í Sunnuhlíð fær viðbótarhúsnæði sem tekið verður á leigu í Sunnuhlíð, samkvæmt heimild sem Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur veitt Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Þannig verður hægt að skapa aukið rými fyrir starfsemi heilsugæslunnar. Þetta kemur fram í frétt heilbrigðisráðuneytisins nú síðdegis. 

Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, sem hefur verið með aðsetur í gömlu heilsugæslustöðinni við Hafnarstræti, verður á meðal þeirra sem nýta munu þetta viðbótarhúsnæði. 

Stækkað úr 1.800 fermetrum í 2.050

„Ný heilsugæslustöð HSN í Sunnuhlíð á Akureyri var formlega tekin í notkun í mars síðastliðnum í húsnæði sem er sérhannað fyrir heilsugæsluþjónustu. Óhætt er að segja að með tilkomu hennar hafi orðið bylting varðandi alla aðstöðu starfsfólks og þeirra sem þangað sækja þjónustu. Með auknu húsnæði í Sunnuhlíð verður unnt að flytja þangað ýmsa starfsemi sem hefur verið rekin í leiguhúsnæði annars staðar í bænum og styðja þannig enn betur við starfsemina.“

Þá er sagt frá því að áfram sé stefnt að því að opna aðra starfsstöð heilsugæslu HSN á Akureyri, að því sé unnið af hálfu Framkvæmdasýslu ríkiseigna. Ekki er þó tekið fram í fréttinni að byggð verði ný heilsugæslustöð frá grunni, eins og ætlunin hefur verið.