Stórt partí í Kjarna og hræðileg umgengni

Stórt partí var haldið í Kjarnaskógi síðustu helgi, aðfaranótt laugardagsins 5. apríl þar sem u.þ.b. 100 ungmenni komu saman. Umgengni var ömurleg, en dósir og drasl voru skilin eftir út um allt, skóför á veggjum og hurðum salerna, og klósettseta var brotin.
„Það var kannski ljósið í myrkrinu í þessu tilfelli, að morguninn eftir var kona að gangi í skóginum með syni sína þrjá sem blöskraði umgengnin og hófust þau handa við að tína saman,“ segir Ingólfur Jóhannsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga. Starfsfólk skógarins getur séð atburði næturinnar á öryggismyndavélum, þannig að áætlun um fjölda gesta er ekki úr lausu lofti gripin.
„Undanfarin ár eru oft haldin einhver partí í skóginum um helgar,“ segir Ingólfur, en Akureyri.net hefur áður fjallað um slæma umgengni næturgesta skógarins. „Hóparnir eru svosem misstórir, og ólíkt hvort um sé að ræða eitthvað skipulagt eða tilfallandi. Það er helst þegar stór hópur myndast, að umgengnin verður mjög slæm, eins og varð núna um helgina.“
Ingólfur er þakklátur fólkinu sem átti leið um skóginn um morguninn og lagaði til. „Strákarnir ungu höfðu gaman af og voru mjög duglegir, og ég á von á þeim í heimsókn í vikunni til þess að þiggja ís hjá okkur starfsfólkinu í þakklætisskyni,“ segir Ingólfur. Hér má sjá myndband frá tiltektinni á Facebook síðu Skógræktarfélagsins, sem var birt um helgina.
Ég er oft bara hundfúll hérna, ég og starfsfólkið mitt eigum ekki að þurfa að standa í þessu
„Við komum alla daga í skóginn, líka á morgnana um helgar, það er ekkert annað í boði,“ segir Ingólfur. „Það er ekki algengt að umgengnin sé mjög slæm, þó við þurfum alltaf að taka eitthvað til. Það er reyndar oft þannig að fólkið sem mætir snemma til útivistar í skóginum er oft búið að taka til, sem okkur þykir mjög vænt um. Við finnum að fólki er ekkert sama um skóginn sinn.“
Skjáskot úr myndbandi þar sem ungu drengirnir og móðir þeirra voru að laga til í skóginum eftir partí næturinnar.
Mikilvægt að tala um umgengi í skóginum
„Oft er þetta ungt fólk sem er að hittast svona á kvöldin, og ég vil taka það fram að þegar þetta eru minni hópar þá er umgengnin oft bara mjög góð og krakkarnir taka saman eftir sig,“ segir Ingólfur. „Það er frekar þegar hóparnir verða svona svakalega stórir, að þetta fer úr böndunum. Ég er oft bara hundfúll hérna, ég og starfsfólkið mitt eigum ekki að þurfa að standa í þessu.“ Ingólfur segir að það sé alveg ástæða til þess að tala um það þegar umgengnin er mjög slæm, upp á að halda umræðunni og fræðslunni gangandi í samfélaginu.
Viðhalda samtali við foreldra og skólayfirvöld
„Við höfum stundum verið í sambandi við foreldra, ef við vitum hverjir voru í skóginum og umgengnin er slæm,“ segir Ingólfur. „Þá fáum við líka að heyra hlið krakkanna, sem segja jafnvel að það hafi mætt svo margir að þau gátu ekkert gert, ætlunin hafi ekki verið að þetta færi svona. Ég hef líka verið í góðu sambandi við framhaldsskólana, og við höfum fengið hópa á þeirra vegum í skólann til þess að tína rusl og svoleiðis, alveg ótengt partíhaldi,“ segir Ingólfur. „Þá notum við tækifærið og reynum að fræða og spjalla um mikilvægi þess að ganga vel um svæðið.“ Ingólfur bætir við að lögreglan fari reglulega í skóginn og sinni eftirliti á þessum tímum, sem hætta er á hópamyndun.
„Krakkarnir okkar eru ekki sóðar og drullusokkar,“ segir Ingólfur að lokum. „Þetta getur farið úr böndnum og það er mikilvægt fyrir okkur að halda samtalinu gangandi og forðast að gera grýlur úr þessu.“