Fara í efni
Akureyri.net - ferðalög

Glæsileg byrjun Þórs/KA í deildinni

Hulda Ósk Jónsdóttir, til vinstri, lagði upp tvö fyrstu mörkin í öruggum sigri Þórs/KA á Víkingi í Reykjavík í kvöld. Mynd: Ármann Hinrik

Þór/KA hóf Íslandsmótið í knattspyrnu með glæsibrag í kvöld, þegar Stelpurnar okkar sigruðu Víkinga mjög örugglega, 4:1, í fyrstu umferð Bestu deildarinnar á útivelli.

Sigurinn var mjög sannfærandi, Þór/KA var betra liðið lang stærstan hluta leiksins sem kom skemmtilega á óvart því mikils er vænst af Víkingsliðinu í sumar. Raunar búast spámenn við því að þessi tvö lið berjist um 3. sætið. 

Litlar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Þórs/KA síðan í fyrra: bandaríski markvörðurinn Jessica Grace Berlin kom frá Írlandi og Eva Rut Ásþórsdóttir frá Fylki, en í stað þess að fá erlenda leikmenn er stefnt að því að ungar og bráðefnilegar stelpur fái stærra hlutverk en áður; þar verður sótt í mikinn fjársjóð, sem ber góðu starfi yngri flokka Þórs og KA frábært vitni.

Eva Rut, sem leikur á miðjunni, varð fyrir því óláni að meiðast eftir aðeins 25 mínútur og fór af velli. Kolfinna Eik Elínardóttir kom inná í hennar stað, fór í stöðu hægri bakvarðar en Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir, sem hóf leikinn þar, færði sig inn á miðjuna þar sem hún nýtur sín best.

Sandra María Jessen var ná­lægt því að skora strax á 12. mínútu en skot hennar lenti í hliðarnetinu og skömmu síðar skaut Hulda Ósk Jónsdóttir rétt framhjá.

Þegar hálftími var liðinn brutu Stelpurnar okkar svo ísinn, og það var söguleg stund því markið gerði hin 15 ára Bríet Fjóla Bjarnadóttir – þetta var fyrsta mark hennar fyrir meistaraflokk í „alvöru“ leik og hún var í fyrsta skipti í byrjunarliðinu.

Hulda Ósk Jónsdóttir fékk boltann á hægri kantinum, lék upp að endamörkum og sendi fyrir markið – boltinn lenti ofan á þverslánni og datt þaðan niður í markteiginn þar sem Bríet Fjóla tók hann á lofti og skoraði af öryggi.

Hulda Ósk var aftur á ferðinni sex mínútum síðar. Lék á varnarmann hægra megin í teignum og sendi inn á markteiginn þar sem Kimberley Dóra skallaði boltann í netið. Mjög vel að verki staðið.

Staðan í hálfleik var 2:0 og snemma í seinni hálfleik bætti Karen María Sigurgeirsdóttir þriðja markinu við með föstu skoti utan vítateigs. Skotið var gott en beint á markmanninn sem hefði átt að gera betur. Hún var of sein að átta sig og boltinn hafnaði í netinu alveg upp við þverslána.

Fljótlega eftir markið kom besti kafli Víkinga í leiknum, loks náðu þeir álitlegum sóknum og minnkuðu muninn á 71. mín. þegar Bergdís Sveinsdóttir skallaði boltann í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá hægri.

Víkingar fengu annað gott færi en nýttu ekki og það var Hildur Anna Birgisdóttir sem gulltryggði sigur Þórs/KA þegar fáeinar mínútur lifðu leiks. Eftir sókn Þórs/KA barst boltinn vel út fyrir vítateig þar sem Margrét Árna­dótt­ir tók þá skynsamlega ákvörðun að skjóta rakeiðis að marki, boltinn small i stönginni og barst þaðan út á markteiginn þar sem Hildur Anna kom aðvífandi og skoraði.

Leikskýrslan

  • Hildur Anna Birgisdóttir gerði fjórða mark Þórs/KA, eins og fram kemur að ofan. Í leikskýrslunni var markið upphaflega skráð á Amalíu Árnadóttur en það verður vonandi leiðrétt.