Fara í efni
Akureyri.net - ferðalög

Fimbulkuldi tafði för til Kaupmannahafnar

Vélin sem Niceair brúkar þessa dagana, á meðan sú sem notuð hefur verið frá upphafi er í eftirlitsskoðun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Tafir urðu á flugi Niceair frá Akureyri til Kaupmannahafnar í gærmorgun og virðist fimbulkuldi vera aðalástæðan. Búnaður á Akureyrarflugvelli til að dæla eldsneyti virkaði ekki, auk þess sem tafir urðu vegna vandkvæða við afísingu vélarinnar. Nice Air nýtir þjónustu Icelandair, Skeljungs og Isavia varðandi eldsneyti og afísingu véla og virðist sem búnaður á Akureyrarflugvelli sé einfaldlega ekki gerður fyrir þann kulda sem var á vellinum í gærmorgun. Einhver óánægja braust síðan fram á samfélagsmiðlum vegna þessara tafa og kvartað undan skorti á upplýsingum, en virðist byggjast á misskilningi eða rangfærslum. Víkjum að því síðar í fréttinni.

Of hraður vöxtur fyrir innviðina?

Farþegi í vélinni hafði samband við Akureyri.net með vangaveltum um það hvort „innviðir séu ekki alveg klárir“ í tengslum við þann mikla vöxt sem orðið hefur í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Mögulega er það stóra spurningin þó tafir séu alltaf óþægilegar fyrir farþega, hver sem ástæða tafanna er. Er vöxtur í millilandaflugi um völlinn einfaldlega of hraður miðað við þá innviði, tækjabúnað og tækni sem eru til staðar á Akureyrarflugvelli?

„Mögulega, en hins vegar er annað að mínus 23ja gráðu frost er eitthvað sem gerist ekki oft á Akureyri. Svona öfgaveðurfar er ekki eitthvað sem tækjabúnaðurinn getur tekið á móti,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Niceair. Spurningunni mætti svo auðvitað snúa við. Er uppbygging innviða of hæg miðað við vöxtinn í fluginu og eftirspurnina?

Þorvaldur Lúðvík tekur undir það að uppbygging á aðstöðu og innviðum á Akureyrarflugvelli hafi ekki haldið í við þann vöxt sem hefur orðið í millilandaflugi um völlinn. „Þetta er ekki klárt, okkur vantar stærra flughlað og það er enn beðið. Flugstöðin, þetta er að verða tafsamasta framkvæmd Íslandssögunnar, það er Isavia að svara fyrir það. Síðan er það með tækjabúnaðinn á Akureyrarflugvelli, hann er úr sér genginn og lélegur, en það er Icelandair og Skeljungs að svara fyrir það.“

Akureyri.net mun áfram fjalla um þessa hlið málsins og leita svara hjá Icelandair, Skeljungi og Isavia.

Forstjórinn mætti sjálfur út í vél

Afleiðing þess að eldsneytisbúnaðurinn á Akureyrarflugvelli virkaði ekki var að millilenda þurfti í Keflavík til að taka eldsneyti, en þá höfðu einnig orðið tafir í tengslum við afísinguna. Einhver óánægja braust út á samfélagsmiðla í gærmorgun varðandi upplýsingagjöfina, en virðist þó byggð á misskilningi eða rangfærslum.

Þorvaldur Lúðvík hafnar því alfarið að fólk hafi ekki verið upplýst um ástæður þeirra tafa sem urðu. Hann var sjálfur á flugvellinum, kveðst hafa verið að hjálpa til við afísinguna og komið sjálfur í tvígang inn í vélina. „Ég hafna því að fólk hafi verið óupplýst. Fólki var haldið upplýstu í vélinni,“ segir Þorvaldur Lúðvík. „Ég var sjálfur þarna inni á flugvelli, ég var að taka ís af vélinni með eigin höndum og fór inn í vélina og útskýrði stöðuna fyrir öllum farþegum í kallkerfi vélarinnar. Þannig fengu allir farþegar útskýringar á viðeigandi hátt og ég hafna því alfarið að fólk hafi verið í myrkrinu með eitthvað. Síðan var öllum um borð gefnar veitingar og mér finnst ósanngjarnt að verið sé að dreifa röngum upplýsingum um þetta,“ segir Þorvaldur Lúðvík.

Að hleypa frá borði getur valdið meiri töfum

Aðspurður segir Þorvaldur Lúðvík það vera matstariði þegar um tafir er að ræða hvort eða hvenær hleypa eigi farþegum aftur inn í flugstöð til að bíða þar frekar en úti í vél. Það taki alltaf tíma að hleypa öllum frá borði og svo aftur um borð. Það geti einfaldlega orðið til þess að enn frekari tafir verði á fluginu. „Það fer eftir því hvenær við vitum hvað er að fara að gerast. Ef menn eru að vinna að lausn og við höldum að við séum að fara af stað þá gerum við það ekki. Þetta er matsatriði í hverju tilviki. Þetta er hundleiðinlegt og við skiljum það alveg,“ segir hann.

Þessar tafir á Kaupmannahafnarfluginu bitnuðu auðvitað einnig á þeim sem ætluðu frá Kaupmannahöfn til Akureyrar síðar um daginn. Þeir farþegar fengu tölvupóst með útskýringum á því að töfina mætti „að öllu leyti rekja til örðugleika sem sköpuðust vegna mikils frosts á Akureyri í morgun. Í frostinu bilaði tækjabúnaður afgreiðsluaðila Niceair. Eldsneytisáfyllingarbíll og dælubúnaður biluðu, en einnig voru skilyrði til afísingar ekki innan þeirra marka sem krafist er til að fyllsta öryggis sé gætt,“ eins og segir í tilkynningunni. Þá var farþegum bent á að vegna þessa hefði mikið selst af matvöru á fluginu út til Kaupmannahafnar og því hætt við margt myndi klárast fyrir heimferðina. „Við mælum því með því að farþegar kaupi veitingar og mat í Kaupmannahöfn frekar en að treysta á matarþjónustu um borð.“ Þá fengu farþegar sem biðu í Kaupmannahöfn einnig tilkynningu um að frímiðum (voucher) upp á 175 danskar krónur yrði dreift til farþega.