Fara í efni
Akureyrarvaka

Listasafnið vill ná til sem flestra hópa

Sigríður Örvarsdóttir, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri, við verk á sýningu sem opnuð var um síðustu helgi. Verkið heitir Karlakórinn í veggnum, höfundur þess er Þórður Hans Baldursson. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Sýningaár Listasafnsins á Akureyri hófst með pompi og prakt um síðustu helgi þegar fjöldi fólks sótti opnun á sýningum Huldu Vilhjálmsdóttur, Kristjáns Guðmundssonar og Þórðar Hans Baldurssonar og Þórunnar Elísabetar Sveinsdóttur. Fjölbreyttar sýningar verða settar upp á safninu í ár.

Listasafnið leggur ríka áherslu á að ná til sem flestra hópa samfélagsins, segir Sigríður Örvarsdóttir, safnstjóri. „Við viljum útvíkka samtalið við samfélagið enn frekar og styðja við fjölbreytni. Aldurstengd mismunun, geðheilsa, uppruni, umhverfisvá, kyn og kynvitund eru aðeins nokkur þeirra málefna sem eru í brennidepli og við munum láta okkur varða á árinu 2025. Markmið okkar er að skapa fjölbreytt rými með listamönnum, þar sem við getum tekið þátt í umræðum um þau hitamál sem snerta þjóðfélagið beint og óbeint,“ sagði Sigríður þegar hún kynnti sýningaárið í vikunni.

Fjölbreytt list verður til sýnis á safninu í ár, sem fyrr segir. Á meðal listamanna sem þar koma við sögu eru Óli G. Jóhannsson – í tilefni þess að Óli hefði orðið áttræður í ár, Þóra Sigurðardóttir, Bergþór Morthens, Margrét Jónsdóttir, Jóhannes Sveinsson Kjarval, Emilie Palle Holm og James Merry.

Auk þess verða fastir liðir á dagskrá eins og A! Gjörningahátíð, Sköpun bernskunnar, samsýning norðlenskra myndlistarmanna og dansvídeóhátíðin Boreal.

Einnig er vert að geta sýndarveruleika innsetningarinnar Femina Fabula sem verður opnuð í lok september og er blanda af hugmynda- og gjörningalist, innsetningu og myndlist. Sýningin er afrakstur þriggja ára samvinnu listamannanna Andro Manzoni og Áka Frostasonar.

Bók um Sköpun bernskunnar

Á kynningarfundi í vikunni var ný árbók Listasafnsins kynnt en hún er nú öllum aðgengileg og gjaldfrjáls í anddyri safnsins auk valdra staða á Akureyri. Hér er bókin í rafrænu formi.

Einnig var formlega tilkynnt um útgáfu sérstakrar bókar um sýningaröðina Sköpun bernskunnar, þar sem skólabörn og starfandi listafólk leiða saman hesta sína og hafa gert í Listasafninu, árlega frá 2015. Að sögn Heiðu Bjarkar Vilhjálmsdóttur, verkefnastjóra fræðslu og miðlunar, er tilgangur sýningarinnar að gera verkum barna hátt undir höfði og áhersla lögð á að listrænt samtal eigi sér stað á milli þeirra og myndlistarfólksins sem tekur þátt í sýningunni hverju sinni.

„Árið 2020 hlaut verkefnið Öndvegisstyrk Safnasjóðs til þriggja ára. Sá styrkur var mikilvæg hvatning sem leiddi til þess að hægt var að þróa verkefnið og sýningarnar enn frekar ásamt því að gefa út þessa glæsilegu bók um verkefnið. Í bókina skrifar AlmaDís Kristinsdóttir, doktor í safnafræði og safnstjóri Listasafns Einars Jónssonar, fræðigrein undir heitinu Gleði, birta, hamingja: Valdeflandi fræðslustarf Listasafnsins á Akureyri. Þar rýnir hún m.a. í þetta langtíma verkefni og setur í fræðilegt samhengi.“

Fræðslustarfið mikilvægt sem fyrr

Þriðjudagsfyrirlestrar Listasafnsins hefja göngu sína að nýju 4. febrúar næstkomandi með fyrirlestri grafíska hönnuðarins Antons Darra Linden Pálmarssonar. Um er að ræða samstarfsverkefni Listasafnsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Gilfélagsins. Fyrirlestrarnir eru sem fyrr haldnir á þriðjudögum kl. 17-17.40 yfir vetrartímann. Að venju verður fræðslustarf Listasafnsins fyrirferðarmikið þar sem m.a. verður boðið upp á almenna leiðsögn, fjölskylduleiðsögn, smiðjur og vinnustofur.