Fara í efni
Akureyrarkirkja

2024 – Mikið um að vera í ferðaþjónustu

Akureyri.net fjallaði töluvert um ferðaþjónustu á árinu sem er að líða enda margt að gerast í þeim efnum. Fyrst ber að nefna að ný og endurbætt flugstöð á Akureyrarflugvelli og nýtt flughlað voru vígð við hátíðlega athöfn og formlega tekin í notkun í desember, en framkvæmdir við hvorutveggja hafa staðið yfir lengi. 

Vél easyJet á Akureyrarflugvell í eitt skipti af mörgum, að þessu sinni þegar fyrsti hópurinn sem fór á leik í ensku knattspyrnunni á vegum Akureyri.net og TA Sport kom heim þriðjudaginn 3. desember. 

Flugfélagið easyJet hóf að fljúga milli Manchester og Akureyrar í haust en áður hafði félagið eingöngu flogið til Akureyrar frá London. Fjölbreytt úrval af allskonar ferðum út í heim var annars í boði frá Akureyri í haust og vetur og  tók Akureyri.net saman lista yfir stóran hluta þeirra. TA Sport, Premierferðir og Akureyri.net tóku líka höndum saman og buðu upp á ferð frá Akureyri á leik Liverpool og Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í haust. Vel tókst til með þá ferð og verður framhald á samstarfinu á nýju ári en í febrúar verða tvær ferðir í boði á knattspyrnuleiki í Bretlandi, önnur til Liverpool, hin til London.

Katrín Káradóttir sem rekur verslunina Kistu í Hofi .

Á árinu var 50 ára afmæli Hölds fagnað en félagið á meðal annars Bílaleigu Akureyrar, lang stærstu bílaleigu landsins, tilkynnt var um 70 herbergja Hilton hótel sem er í byggingu á Drottningarbrautarreitnum við Austurbrú og handan Hafnarstrætis hafa miklar framkvæmdir verið í gangi á vegum Hótels Akureyrar.

Endanlega varð ljóst að hótel verður byggt við Skógarböðin, eftir að samningar náðust á milli eigenda baðanna og Skógræktarfélags Eyfirðinga. Tilkynnt var um samning við Íslandshótel um reksturinn, því samstarfi var síðar slitið er uppbygging hótelsins heldur engu að síður áfram. Þá er vert að geta þess að Skógarböðin komust í flokkinn Best í heimi sem áfangastaður að mati bandaríska tímaritsins National Geographic.

Söngvararnir Sebastian Yatra frá Kólumbíu og hin spænska Aitana.

Fjöldi fólks brá sér í hvalaskoðun á árinu og mikið var um hval í Eyjafirði. Akureyri.net fjallaði einnig mikið um skemmtiferðaskip og áhrif þeirra.

Rætt við marga sem tengjast ferðamennsku í bænum. Til að mynda við Hörð Rögnvaldsson og Sigrúnu Gísladóttur sem reka Hafnarstræti hostel á annarri hæð í Amarohúsinu en þar bjóða þau upp á gistingu í nútímalegum lokrekkjum. Þá ræddum við Katrínu Káradóttur sem rekur verslunina Kistu í Hofi en þangað leggur fjöldi ferðamanna leið sína á sumrin. Eins var spjallað við mæðgurnar Helgu Sigríði og Önnu Margréti í Seglinu en þær hafa margoft aðstoðað ferðamenn með biluð tjöld í bænum, enda geta þær gert við nánast hvað sem er. 

Akureyrarflugvöllur tók miklum breytingum með nýrri flugstöðvarbyggingu og nýju, stóru flughlaði.

Í sumar kom líka í ljós að Grýla og Leppalúði, sem glatt hafa margan ferðamanninn á Akureyri, virðast alveg vera skilin af skiptum en Grýla var alein í göngugötunni í sumar og var frekar tuskuleg. Þá sögðum við frá því að tvær spænskumælandi stórstjörnur gáfu út lag um Akureyri í apríl sem kallast Akureyri. Söngvararnir eru Sebastian Yatra frá Kólumbíu og hin spænska Aitana. Hann er gríðarlega vinsæll, ekki síst í Suður-Ameríku og hún á Spáni og víðar. Lagið mun líklega koma Akureyri enn frekar á kortið erlendis.