Fara í efni
Akureyrarflugvöllur

Viltu reka fríhöfn eða sjá um veitingasölu?

Gert er ráð fyrir að ný álma flugstöðvarinnar á Akureyrarflugvelli verði tekin í notkun um næstu áramót og Isavia hefur auglýst eftir aðilum sem kynnu að hafa áhuga á að reka veitingasölu og fríhöfn í flugstöðinni.

„Við rennum í raun alveg blint í sjóinn. Það liggur fyrir að núverandi veitingasali í flugstöðinni hættir rekstri í sumar og þess vegna stígum við þetta fyrsta skref nú; við höfum birt markaðskönnun á vef Isavia og viljum í framhaldinu ræða við þá sem sýna verkefninu áhuga, án allra skuldbindinga,“ segir Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlandsflugvalla ehf. við Akureyri.net.

Búið er að staðsetja veitingasölu og fríhöfn í nýju byggingunni en hugmyndin er að lokahönnun verði í samstarfi við leigutakana.

„Ég myndi halda að þetta væru mjög spennandi verkefni til framtíðar. Áhugi á að fljúga til Akureyrar er mikill og á eftir að aukast; Akureyrarflugvöllur er vaxtarsproti innanlanadsflugvallanna, við fórum þá leið að setja út svona markaðskannanir vegna Keflavíkurflugvallar, það gaf góða raun og því viljum við nota sömu aðferðarfræði í þetta skipti. Viljum kalla fólk að borðinu til að koma með hugmyndir, án skuldbindingar þeirra eða okkar. Við erum í raun að bjóða upp í dans. Sá sami gæti tekið að sér að reka annað hvort veitingasöluna og fríhöfnina, eða hvort tveggja, allt er opið í því.“

Smellið hér til að sjá allar frekari upplýsingar á útboðsvef Isavia