Fara í efni
Akureyrarflugvöllur

Þingmenn vilja fund með Isavia – og svör

Akureyrarflugvöllur, þar sem komið hefur verið upp sjálfvirkum myndavélum sem „lesa“ númer á þeim bílum sem koma og fara. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Flestir þingmenn Norðausturkjördæmis hafa óskað eftir fundi með stjórn Isavia innanlands vegna gjaldtöku á bílastæðum sem hefst innan skamms á flugvöllunum á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík. Þeir segjast vilja ræða ákvörðun stjórnar Isavia þess efnis að hefja gjaldtöku og fá svör við spurningum sem brenni á þeim og íbúum kjördæmisins.

Kemur á óvart

Þingmennirnir segja að miðað við áherslur ríkisins og byggðasjónarmið komi áform um bílastæðagjöld á flugvöllunum á Egilsstöðum og Akureyri íbúum á óvart. „Sérstaklega þegar nýlega hafi tekist að tryggja ISAVIA innanlands meiri tekjur til að þjónusta varaflugvellina í gegnum varaflugvallargjald,“ segir í erindi þeirra til stjórnar fyrirtækisins. Nú sé stefnt að því að bæta álögum á íbúa landsbyggðanna sem nota flugið sem almenningssamgöngur t.d. til að sækja nauðsynlega þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknar og fyrsti þingmaður kjördæmisins, átti frumkvæðið að því að senda stjórn Isavia innanlands erindi og stór hluti þingmanna kjördæmisins tók undir, eins og hún sagði á Facebook síðu sinni.

Álögur á íbúa landsbyggðarinnar

Erindi þingmannanna er svohljóðandi:
 
Innanlandsflug er mikilvægur liður í samgöngukerfi landsins og í því felst aðgangur þeirra sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu að ýmis konar þjónustu, s.s. í heilbrigðis- og menntakerfinu sem og menningarviðburðum.
 
Miðað við áherslur ríkisins og byggðasjónarmið þá komu áform um bílastæðagjöld á flugvöllunum á Egilsstöðum og Akureyri íbúum á óvart. Sérstaklega þegar nýlega hefur tekist að tryggja ISAVIA innanlands meiri tekjur til að þjónusta varaflugvellina í gegnum varaflugvallargjald. Nú er stefnt að því að bæta álögum á íbúa landsbyggðanna sem nota flugið sem almenningssamgöngur t.d. til að sækja nauðsynlega þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.
 
Við þingmenn Norðausturkjördæmis áttum okkur á nauðsyn þess að byggja upp og viðhalda bílastæðum á flugvöllum og þörfinni fyrir að stýra nýtingu bílastæðanna, en í ljósi byggðasjónarmiða er það sérstakt að þeim sem eiga um lengstan veg að fara til höfuðborgarinnar skuli ætlað að standa undir þeim kostnaði. Við teljum mikilvægt að áform þessi verði skoðuð í víðara samhengi.
 
Sveitarstjórnir og íbúar hafa ítrekað gert athugasemd við gjaldtökuna og óska eftir því að tekið verði tillit til aðstæðna þess fólks sem þarf að gera sér ferð suður til að sækja þjónustu.
 
Enda er það er hvorki sanngjarnt né réttlátt að gera ferðir til að sækja nauðsynlega þjónustu enn dýrari fyrir þann hóp sem ber mestan kostnað nú þegar.
Í ljósi þessa óska undirritaðir þingmenn Norðausturkjördæmis eftir fundi með stjórn ISAVIA innanlands til að ræða þessa ákvörðun og svara spurningum sem brenna á okkur og íbúum kjördæmisins vegna þessarar ákvörðunar.
 
Ingibjörg Isaksen 
Líneik Anna Sævarsdóttir
Þórarinn Ingi Pétursson
Njáll Trausti Friðbertsson
Berglind Ósk Guðmundsdóttir
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir
Jódís Skúladóttir
Logi Einarsson
Jakob Frímann Magnússon