Fara í efni
Akureyrarflugvöllur

„Þakkarvert“ – 85% fljúga heim samdægurs

Ein sjálfvirku myndavélanna á Akureyrarflugvelli sem munu „lesa“ númer á þeim bílum sem koma og fara. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis fagnar því að gjaldtaka á bílastæðum við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum skuli ekki hefjast fyrr en 14 klukkstundum eftir að bíl er lagt þar. Upphaflega hugðist Isavia innanlands hefja gjaldtöku að fimm klukkustundum liðnum.

Gjaldtaka hefst á morgun, þriðjudag, eins og Akureyri.net hefur greint frá.

„Það sem sumum finnst lítið mál getur verið stórt mál í hugum annarra sem í þessu tilfelli er landsbyggðin,“ skrifaði Ingibjörg á Facebook síðu sína.

Breytingin skiptir miklu máli

Ingibjörg segir við Akureyri.net að breytingin skipti miklu máli og muni til dæmis koma í veg fyrir að fólk sem flýgur að heiman að morgni dags vegna læknisheimsóknar og aftur heim um kvöldið þurfi að greiða fyrir að leggja á bílastæði.

Fyrir nokkrum vikum voru settar upp myndavélar við flugvöllinn á Egilsstöðum og Ingibjörg upplýsir að óformlegar mælingar sýni fram á að 85% þeirra sem nýta sér flugsamgöngur frá Egilsstöðum komi heim samdægurs.

Þessi breyting mun því ná til stórs hluta einstaklinga sem nýta sér þjónustuna. Það verður áhugavert að sjá hvernig þetta kemur til með að þróast þegar mælingar hafa staðið yfir í lengri tíma og varpa skýrari mynd á notkunina,“ segir hún.

Tillit tekið til ábendinga 

„Það er því þakkarvert að sjá Isavia innanlands taka tillit til ábendinga íbúa og okkar þingmanna varðandi gjaldtöku á bílastæðum. Með því að lengja tímann með þessum hætti í 14 klst. á Akureyri og Egilsstöðum gerir það fólki betur kleift að nýta sér flugsamgöngur til þess að sækja þá þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð.“

Flestir þingmenn Norðausturkjördæmis óskuðu á dögunum eftir fundi með stjórn Isavia innanlands vegna málsins að frumkvæði Ingibjargar. Ekki tókst að koma á fundi en eftir samtöl var niðurstaðan sú sem að framan greinir.