Fara í efni
Akureyrarflugvöllur

Hlýtur að falla um sjálft sig – eða hvað?

Ein röksemd fyrir gjaldtöku á drullupolli á Egilsstaðaflugvelli var að hún væri forsenda þess að nútímavæða drulluna með malbiki, segir Berglind Ósk. Tekið skal fram að myndin er ekki af polli á Egilsstöðum heldur á Akureyrarflugvelli og var tekin í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Berglind Ósk Guðmundssdóttir, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, gagnrýnir harðlega fyrirhugaða gjaldtöku á bílastæðum á flugvöllunum á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík.

Þingmaðurinn segir að ómögulegt verði að framfylgja fyrirvara sem fjármálaráðherra setur við samninginn og þar af leiðandi hlýtur þetta að falla um sjálft sig. Eða hvað?segir Berglind á Facebook síðu sinni.

„Framkvæmd þessarar óvelkomnu gjaldtöku á innanlandsvöllunum er eins og bíómynd sem enginn bað um að yrði framleidd,“ segir þingmaðurinn en Isavia mun hefja gjaldtöku einhvern næstu daga.

Jafnræðið er ekkert

Berglind rifjar upp að þegar hugmyndir um gjaldtöku hafi verið kynntar í byrjun árs hafi þeim verið harðlega mótmælt og það hafi hún sjálf gert, m.a. á grundvelli þess að ekkert jafnræði væri fólgið í því að einungis átti að hefja gjaldtöku á Akureyri og Egilsstöðum en ekki á Reykjavíkurflugvelli. „Nú þá var auðvitað gripið til þess ráðs að hefja gjaldtökuna bara líka á Reykjavíkurvelli,“ segir hún. Jafnræðið samt sem áður ekkert því ekki eru höfuðborgarbúar að sækja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem aðeins er í boði úti á landi.
 
Berglind heldur áfram:  Svo voru röksemdir um gjaldtökuna á drullupolli á [Egilsstaðaflugvelli] þær hún væri forsenda þess að hægt væri að nútímavæða drulluna með malbiki. Svona jafn eðlilegt og að mæta á veitingastað, vera krafinn um að borga fyrst fyrir hamborgarann svo kokkurinn geti skotist út til að kaupa brauðið.
 
Betra heima setið?
 
Svo var lagaleg heimild fyrir gjaldtökunni óljós, unnið var þrusugott lögfræðilegt álit þess efnis. Þá hlupu menn til handa og fóta og undirritaður var samningur í tveimur ráðuneytum - sem sumir upplifa að hafi gerst í skjóli nætur og breytir þó ekki lagagrundvellinum.
 
Nú segist ISAVIA mega hefja gjaldtökuna á grundvelli þessa samnings en þó með þessum glæsilega fyrirvara fjármálaráðherra um læknisheimsóknir sem verður ómögulegt að framfylgja og þar af leiðandi hlýtur þetta að falla um sjálft sig. Eða hvað?
 
Það er alveg ljóst að gjaldtakan er í algjörri óþökk íbúa, sveitarstjórnarmanna og þingmanna. Er þá ekki betra heima setið en af stað farið?“ segir Berglind Ósk Guðmundsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.