Fara í efni
Akureyrarflugvöllur

Eitt tilboð upp á 910 milljónir í byggingu flugstöðvarinnar

Svona verður flugstöðin séð frá bílastæðinu. Viðbyggingin vinstra megin, núverandi flugstöð og flugturninn til hægri.

Eitt tilboð barst í viðbætur og breytingar flugstöðvar á Akureyri fyrir Isavia. Það var frá fyrirtækinu Húsheild ehf. í Mývatnssveit sem býðst til að vinna verkið fyrir rúmar 910 milljónir króna – 910.454.953 kr. Ekki hefur verið gefið upp hve fjárhagsáætlun var há.

Eins og Akureyri.net greindi frá snemma árs er stefnt er að því að viðbygging við flugstöðina á Akureyri verði tekin í notkun að vori eða sumri 2023. Um er að ræða 1100 fermetra stálgrindarhús. 

Í viðbyggingunni, sem verður við norðurenda núverandi flugstöðvar en nær til vesturs, verður brottfarar- og komusalur fyrir millilandaflug, fríhöfn og veitingasala. Innritunarsalur fyrir bæði innanlands- og millilandaflug verður í núverandi komusal og innanlandsfarþegar fara um suðurhluta núverandi byggingar.

Gert er ráð fyrir því að eftir stækkun flugstöðvarinnar verði hægt að afgreiða 180 sæta millilandavél á innan við klukkutíma samhliða 70 sæta innanlandsvél. Við hönnun er gert ráð fyrir því að auðvelt verði að stækka bygginguna síðar meir og breyta nýtingu einstakra svæða.

Horft af flugplaninu; núverandi flugstöð til vinstri, viðbyggingin er sú brúna hægra megin.