Fara í efni
Akureyrarflugvöllur

Bretarnir koma!

Akureyringar og nærsveitungar mega búast við skerandi hávaða með reglubundnu millibili næstu tæpar tvær vikurnar eða svo þegar bresk flugsveit sem samanstendur af fjórum F-35 orrustuþotum og 180 liðsmönnum verður hér við loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins. Gert er ráð fyrir aðflugsæfingum á Akureyri á bilinu 5.-16. ágúst, en þó með fyrirvara um veður.

Breska flugsveitin er væntanleg núna í byrjun vikunnar.

Fram kemur á vef utanríkisráðuneytisins að sveitin taki þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum stjórnstöðva Atlantshafsbandalagsins í Uedem í Þýskalandi og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Framkvæmdin verður með sama fyrirkomulagi og undanfarin ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland. Flugsveitin hefur aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli ásamt flugsveitum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins sem sinna kafbátaeftirliti á Norður-Atlantshafinu.

Varnarmálasvið Landhelgisgæslu Íslands annast framkvæmd verkefnisins, í umboði utanríkisráðuneytisins, í samstarfi við Isavia. Ráðgert er að loftrýmisgæslunni ljúki í byrjun september.