Fara í efni
Akureyrarflugvöllur

Baldvin kvaddi með alvöru „karlamat“

Takk fyrir mig! Frá vinstri: Kristinn Hreinsson, Björn Óskar Björnsson og Baldvin H. Sigurðsson þegar fyrstu fastagestirnir í Flugkaffi kvöddu vertinn í eldhúsi hans í hádeginu í dag. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Baldvin H. Sigurðsson hefur séð farþegum sem fara um Akureyrarflugvöll fyrir veitingum í hartnær 20 ár en nú er Flugkaffi hans ei meir. Baldvin var í litla eldhúsinu sínu í dag en á morgun verður þessi góði, rólyndi Eyrarpúki orðinn fyrrverandi vert á flugvellinum. 

Margir eru á faraldsfæti dag hvern, fá sér kaffibolla, brauðsneið eða upprúllaða pönnuköku með sykri, sem Baldvin hefur bakað alla daga þessa tvo áratugi. Pönnsurnar eru lostæti og smakkast enn betur en ella ef góð saga fylgir í kaupbæti, sem er ekki óalgengt. 

Fastakúnnar í hádeginu

Auk þess að bjóða upp á þessar hefðbundu flugfarþega-veitingar hefur Baldvin eldað fyrir starfsmenn Isavia á flugvellinum í mörg ár og aðrir fastagestir hafa mætt í hádeginu á fimmtudögum og föstudögum árum saman og þá dugar ekki annað en bjóða upp á alvöru „karlamat“ (eins og hann orðar það) sem sé orðinn sjaldgæfur á heimilum.  Í dag eldaði Baldvin uppáhald margra í þeim hópum, saltkjötsfarsbollur – heimalagaðar frá grunni – og bar fram með kartöflumús,  smjöri, káli og rófum.

Síðasta vaktin. Ólöf J. Eyland, Páll Sigurðarson, Baldvin sjálfur og Jón Ingi, sonur Baldvins og konu hans, Ingu Ingimundardóttur.

Fimmtudagshópurinn var að sjálfsögðu mættur í hádeginu og föstudagshópurinn kom degi fyrr en venjulega til að missa ekki af herlegheitunum. 

Það voru tveir úr síðarnefnda hópnum sem riðu á vaðið fyrir einum 19 árum; þegar Kristinn Hreinsson sneri heim til Akureyrar á ný og varð framkvæmdastjóri Rafeyrar fóru þeir að venja komur sínar í Flugkaffi á föstudögum, hann og Björn Óskar Björnsson vinur hans. Rafeyrarhópurinn, eins og Baldvin kallar hann (þótt ekki starfi þeir allir hjá því fyrirtæki), stækkaði hratt og Kristinn telur að þeir mæti átta að meðaltali hvern föstudag. 

Fimmtudagshópur Baldvins. Þar er oft hraustlega tekið til matar síns og jafnvel rifist um síðasta bitann að sögn.

Þegar farið var að nefna tölur reif rekstrarfræðingurinn upp símann og hóf að reikna: 48 vikur að meðaltali á ári í 19 ár, átta karlar í einu, hver máltíð kostar 3.000 krónur á núvirði. 

– „Baldvin, þetta eru nærri 22 milljónir!“ upplýsir Kristinn.

– „Hvað segirðu! Hvar eru allir þessir peningar?“ svarar vertinn af sinni alkunnu rósemd og mætir með næsta fat, þakið saltkjötsfarsbollum og gestirnir fá sér aftur á diskinn. Búnir að gleyma tölunum.

Menn taka jafnan hraustlega til matar síns, bæði á fimmtudögum og föstudögum. Einn úr fimmtudagshópnum laumaði því að blaðamanni að fyrir kæmi að gaffall stæði upp úr handarbaki þegar barist væri um síðasta bitann. Enginn fékkst þó til að staðfesta þá fullyrðingu eða sýna slíkan bardaga.

Baldvin sagðist myndu sakna allra þessara vina sinna og þeir sögðust jafnframt sakna hans og ekki síður matarins. 

Vertinn, sem varð sjötugur fyrir skömmu, hefur unnið við matseld í 55 ár að eigin sögn og alltaf haft gaman af. Hann hóf rekstur Flugkaffis í ágúst árið 2003 þannig að ekki vantar marga daga upp á að hann nái fullum 20 árum þar á bæ.

Hann hefur oftast staðið vaktina frá því klukkan sex að morgni til klukkan níu að kvöldi, með hléi yfir miðjan daginn, þannig að viðbrigðin verða mikil strax á morgun.

Þegar spurt er hver helsta breytingin verði á þessum tímamótum að mati vertsins hugsar Baldvin sig um.

– „Þeir mun líklega leggja af!“ segir hann svo og horfir yfir strákahópinn. „Og sumum finnst víst kominn tími til ... “

Baldvin mætir með fyrsta fatið til föstudagshópsins í dag – en ekki það síðasta ...

Það er óvenju mikið eftir, sagði einn úr föstudagshópnum þegar þessi mynd var tekin af síðasta fatinu.

Einn föstudagsdrengjanna, Tryggvi Gunnarsson, færði Baldvin og Ingu konu hans gjafabréf frá hópnum í tilefni tímamótanna.

Síðustu pönnukökurnar sem Baldvin bakaði á flugvellinum.