Fara í efni
Akureyrarflugvöllur

Áætlunarflug milli Zürich og Akureyrar

Svissneska flugfélagið Sviss, Edelweiss Air, mun hefja áætlunarflug til Akureyrar frá Zürich næsta sumar. Flogið verður á föstudagskvöldum til Akureyrar og svo strax til baka til Zürich í næturflugi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands í morgun.

Edelweiss hefur selt ferðir til Keflavíkur um árabil og hefur í vetur boðið upp á vetrarflug til Íslands í fyrsta sinn, að því er segir í tilkynningunni. „Félagið hefur því mikla trú á Íslandi sem áfangastað og sér góð tækifæri til þess að koma með enn fleiri farþega til landsins í gegnum Akureyrarflugvöll, þá sérstaklega farþega sem hafa áður komið til Íslands og vilja ferðast víðar um landið. Mögulegt verður að bóka sér flug frá báðum flugvöllum í sömu bókun, þannig að komið er til Akureyrar og farið heim frá Keflavík eða öfugt. Auk þess býðst Íslendingum sá möguleiki að fljúga beint til Sviss frá Akureyri. Þetta fyrsta sumar verða ferðir í boði á sjö vikna tímabili, frá 7. júlí til 18. ágúst en félagið stefnir að því að lengja tímabilið árið 2024 í fjóra mánuði.“

Mikið gleðiefni

Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri hjá Markaðsstofu Norðurlands, segir það mikið gleðiefni fyrir norðlenska ferðaþjónustu og Norðlendinga almennt, að Edelweiss hafi ákveðið að bæta Norðurlandi inn í leiðakerfi félagsins. „Það sýnir okkur að Edelweiss hefur trú á áfangastaðnum og sér framtíðartækifæri í þróun ferðaþjónustu hér. Það sýnir okkur líka að markvisst markaðsstarf, á borð við það sem hefur verið unnið í Flugklasanum, og þolinmæði skilar árangri. Flugklasinn hefur undanfarin ár átt í góðum samskiptum við ferðasöluaðila í Sviss sem hafa sýnt þessu áhuga. Samstarf okkar við Austurbrú, Íslandsstofu og Isavia um markaðssetningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum hefur svo aukið slagkraftinn í okkar vinnu og það skilar sér í þessum áfanga. Eftirspurn eftir því að fljúga beint til Akureyrar og Egilsstaða fer vaxandi og ég trúi því að við sjáum áframhaldandi fjölgun á komum erlendra flugfélaga á næstu misserum,“ segir Hjalti.

Ísland vinsælt hjá Svisslendingum að sumri

„Edelweiss Air er leiðandi flugfélag í Sviss, og býður upp á beinar flugferðir frá Zürich til 89 áfangastaða um allan heim – og árið 2023 bætist Akureyri í þann hóp. Ísland er einn af þeim áfangastöðum sem eru hvað vinsælastir yfir sumarið hjá Svisslendingum. Við höfum boðið upp á áætlunarflug til Keflavíkur með góðum árangri síðustu tvö ár og sjáum fjölda farþega skoða allt landið yfir sumartímann, og þeir sýna náttúru Norðurlands sérstakan áhuga. Með því að bjóða upp á beint flug til Norðurlands vonumst við til þess að geta boðið ferðalöngum frá Sviss upp á enn auðveldari leið til að komast á Norðurland. Hægt er að fljúga til Akureyrar og Keflavíkur en svo heim frá öðrum hvorum flugvellinum, sem skapar marga möguleika í skipulagningu ferðalaga, eftir því sem hentar hverjum og einum. Okkar áætlanir fyrir framtíðina er að bjóða upp á flug frá júní til september. Þegar við höfum náð árangri með þær, munum við svo skoða framhaldið betur,“ segir í tilkynningu frá Edelweiss Air.

Hægt er að bóka flug til Akureyrar hér: https://booking.flyedelweiss.com/en-ch/search.