Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Uppbygging um allt land

NORÐAUSTURKJÖRDÆMI – 3

Sem fræðimaður og áhugamaður um byggðamál skrifa ég hér átta stuttar greinar um mikilvægustu málin í Norðausturkjördæmi að mínu mati.

Í þriðja sæti er uppbygging um allt land.

Þetta er risastórt mál sem verðskuldar lengri umfjöllun en skoðum megindrættina.

Það er líklegt að það verði áfram mikil mannfjölgun á Íslandi. Mest vegna innflutnings fólks. Árið 2022 var mannfjölgun á Íslandi 2,8%. 2023 var hún 2,3%. Þetta gerðist þrátt fyrir húsnæðisskort. Það geta 450 milljónir manna í Evrópu flutt til Íslands án hindrunar og ef lífskjör verða hér áfram betri en annarsstaðar er líklegt að straumurinn haldi áfram.

Mikil mannfjölgun þýðir að það verður að byggja upp um allt land. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir að fjölgunin verði eingöngu á höfuðborgarsvæðinu eins og nánast hefur verið síðustu áratugi. Reyndar er hér risastórt tækifæri til að snúa frá byggðaþróun síðustu áratuga og koma meira jafnvægi á byggð landsins.

Aðstæður hafa breyst á síðustu áratugum sem margar hníga í þá átt að nú sé rétti tíminn til uppbyggingar um allt land, sérstaklega á íbúðarhúsnæði. Þessar eru þær helstu:

  • Aukin íbúafjölgun (eins og að framan var nefnt) og skortur á húsnæði.
  • Land er orðið mjög dýrt á hbs (höfuðborgarsvæðinu) sem gerir hverja íbúð dýrari sem nemur mörgum Mkr. Við Íslendingar eigum hins vegar nægt mun ódýrara byggingarland utan hbs sem leiðir af sér ódýrari íbúðir.
  • Upplýsingartæknibyltingin gerir sífellt stærri hluta starfa óháðan staðsetningu. Kóvið ýtti enn í þessa átt.
  • Aukinn áhugi landsmanna að búa utan hbs og temja sér „hægari“ lífsstíl. Þetta virðist vera þróunin en erfitt er að setja fingur á hana.
  • Byggð á hbs er komin á þann stað að því fylgir feykilegur kostnaður að auka við hana frekar. Áformuð gífurlega kostnaðarsöm borgarlína undirstrikar þetta.

Það er reyndar áleitin spurnig hvort að ekki sé betri nýting á fjármunum ríkisins að nota 300 Gkr (300 milljarða kr) til að byggja íbúðir utan hbs frekar en að veita þeim í borgarlínu. Þessar íbúðir væri síðan hægt að selja og nota féð til að byggja aftur og svo koll af kolli. Myndi minnka þörf á borgarlinu verulega. Líklega væri best að íbúafjölgun á Íslandi verði að mestu utan hbs næstu ár.

En mun það krefjast mikilla aukalegra fjárfestinga í samgöngum að fólki fjölgi víða um land? Í mörgum tilfellum ekki. Jafnvel flestum. Yfirleitt þarf samskonar vegi út frá 1.000 íbúa bæ og 2.000 íbúa bæ. Ekki er sjáanlegt að annað vegakerfi þyrfti fyrir 5.000 íbúa Húsavík heldur en núverandi Húsavík. Í báðum tilvikum þarf að byggja nýja brú á Skjálfandafljót. Þótt íbúar Hvammstanga eða Djúpavogs eða Fáskrúðsfjarðar væru þrefalt fleiri þá þyrfti ekki annað vegakerfi. Hins vegar skapast tækifæri til að bæta samgöngur ef íbúafjöldi er meiri, sérstaklega ef veggjöld eru notuð.

Ríkið getur haft áhrif á þessa þróun með margvíslegum hætti. Í fyrsta lagi með því að lýsa yfir vilja til að þetta verði þróunin. Það væri móralskur stuðningur sem ýtir við fólki. Í öðru lagi með því að búa til hvatakerfi sem ýtir í þessa átt. Í þessu risastóra máli er verk að vinna.

Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri