Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Sterkari sveitir eru allra hagur

Reglulega kemur upp umræða um jarðir, jarðaviðskipti og kynslóðaskipti í landbúnaði. Í ritinu Ræktum Ísland, skýrslu Björns Bjarnasonar og Hlédísar Sveinsdóttur, er efninu gerð verðug skil. Þá hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins ítrekað flutt frumvörp um ýmsar aðgerðir til að auðvelda ættliðaskipti á bújörðum.

Fullveldið er í húfi

Of lítil umræða hefur verið um skýrslu um jarðir, sem stýrihópur á vegum Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra skilaði 2021. Skýrslan tekur á mikilvægu úrlausnarefni þar sem mikið verk er enn óunnið til að lög, reglur og stjórnsýsla falli að nútímanum og breyttum aðstæðum og viðhorfum til lands og þeirra gæða sem í því felast. Þegar skýrslan er rýnd vekur athygli að virðing fyrir eignarrétti bænda, og viðhorf til jarðaviðskipta eru vanþróuð hér á landi. Í skýrslunni segir:

„Alþjóðleg reynsla hefur sýnt að rík ástæða er til að gjalda varhug við mikilli samþjöppun eignarhalds á landi. Land er enda undirstaða fullveldis ríkja og telst það til grundvallargæða hvers samfélags. Íslenskt land er sérstaklega verðmætt enda geymir það víðast hvar gnægð af þjóðfélagslega mikilvægum náttúruauðlindum undir og á yfirborði jarðar, þar á meðal jarðhita-, vatns og veiðiréttindum. Eru þá ótalin þau miklu samfélagslegu og menningarlegu verðmæti sem felast í náttúru landsins og náttúru- og menningarminjum ýmiss konar. Viðhlítandi aðgangur að landi er einnig forsenda uppbyggingar og nýliðunar í landbúnaði og nauðsynlegur þáttur í viðhaldi og þróun byggðar.“

Mótum nýja löggjöf

Af þessum texta í skýrslunni sést að full þörf er fyrir mun ítarlegra samtali og vinnu við mótun löggjafar um jarðir á Íslandi, fyrir því viljum við standa.

Ekki verður um það deilt að samfélagsbreyting og aukin ásókn í bújarðir hafi ekki verið til að bæta hag bænda. Ótal dæmi eru um að „nýir” jarðeigendur hafa auðgað og styrkt sveitir, þó hin hliðin þekkist líka.

Þá skal ekki gleymt að ljósleiðarvæðing dreifbýlis og átak í lagningu á 3ja fasa rafmagni, hefur styrkt búsetu og verðmætasköpun í sveitum. Þessi verkefni hefur Sjálfstæðisflokkurinn leitt.

Kynslóðaskipti

Nýliðun í landbúnaði kemur okkur öllum við og íslenska þjóðin, í breyttri heimsmynd, verður að horfast í augu við að sjálft fullveldið er í húfi, hvernig íslenskum landbúnaði vegnar. Grundvallaratriði er að afkoma bænda verði traust. Ungum bændum þurfa að standa til boða, eins og öðrum landsmönnum, almennar aðgerðir í húsnæðismálum. Má þar nefna stofnframlög og/eða hlutdeildarlán til kaupa á íbúðarhúsnæði. Einnig þarf með markvissum hætti að beita skattkerfinu, svo eldri kynslóð bænda hafi hag af því að verða hluti af lausninni með því að viðurkenna að söluverð búa og jarða er séreignarsparnaður þeirra. Áhuga vantar ekki hjá ungu fólki að hasla sér völl í landbúnaði.

Ný tækifæri

Í áðurnefndri skýrslu er einnig m.a. umfjöllun um breytingar og meðferð á heimildum til að fara um land bænda. Má þar strax koma auga á löngu tímabæra breytingu á samningum við bændur um línulagnir, sem krefst að þess að farið sé um lönd bænda, þannig að leigutekjur renni til jarðanna/bænda.

Enginn vafi er á að eignarhald bænda sjálfra á bújörðum sínum, tryggir hag þeirra og þjóðfélagsins best. Sjálfstæðisflokkurinn hefur, vill og mun standa áfram að framförum í íslenskum landbúnaði og sveitum.

Höfundar skipa 2. sæti á framboðslistum Sjálfstæðisflokksins í landsbyggðarkjördæmunum þremur; Njáll Trausti Friðbertsson í Norðausturkjördæmi, Björn Bjarki Þorsteinsson í Norðvesturkjördæmi og Vilhjálmur Árnason í Suðurkjördæmi.