Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Sjóðir bundnir landsvæðum til að styðja við nýsköpun og skapandi greinar

NORÐAUSTURKJÖRDÆMI – 7

Sem fræðimaður og áhugamaður um byggðamál skrifa ég hér átta stuttar greinar um mikilvægustu málin í Norðausturkjördæmi að mínu mati.

Í sjöunda sæti er meiri og einbeittari stuðningur stjórnvalda við nýsköpun heima í héraði.

Á Íslandi er töluverður stuðningur við nýsköpun og skapandi greinar þótt við höfum ekki skorað hátt á því sviði í alþjóðlegum samanburði gegnum tíðna. Stjórnvöld veita nú staðbundna styrki til landshluta í gegnum sóknaráætlun. Uppbyggingarstyrkir hafa verið veittir á Norðurlandi eystra og á Austurlandi og hefur um helmingur þeirra farið til menningarmála en heldur minna í atvinnuþróun og nýsköpun. Samtals var úthlutað á þessum landsvæðum 138 Mkr árið 2024 úr uppbyggingarsjóðum.

Þetta er gott og blessað en stóru peningarnir til nýsköpunar eru í landssjóðum Rannís svo sem Tækniþróunarsjóði. Landsvæðið sem er lang sterkast í að sækja fjármagn í landssjóðina er hbs (höfuðborgarsvæðið). Auðvitað er hbs lang stærsta svæðið en þar er menntunarstig einnig hærra og svæðið hefur ,,hefðina“ með sér í nýsköpun. Hættan er sú að einstaklingar með nýsköpunarkraft í landsbyggðunum sæki ekki um í sjóð eins og Tækniþróunarsjóð þar sem þeir telji það fyrirfram vonlaust. Eða að frumkvöðlar flytji til hbs þangað sem féð til nýsköpunar hefur leitað. Þetta leiðir til þess að fé til örvunar atvinnulífs fer þangað þar sem minnsta þörfin er á örvun en síður til þerra landsvæða sem sannarlega þyrftu á örvun að halda.

Til að bregðast við þessu þyrfti að úthluta fé í meira mæli með landshlutabundnum hætti. Það þyrfti sérstakan tækniþróunarsjóð á Norðurlandi vestra, landsvæði sem þarf sérstaklega mikla örvun miðað við byggðaþróun síðustu áratuga. Það þyrfti annan á Norðurlandi eystra og enn annan á Austurlandi. Þetta hefði þau áhrif að frumkvöðlar myndu frekar haldast við í heimabyggð og stofna þar fyrirtæki. Þetta gæti líka þýtt að nýir frumkvöðlar kæmu inn á svæðin ef þeir teldu sig eiga þar meiri möguleika á stuðningi en annarsstaðar.

Það væri t.d. hægt að hugsa sér að núverandi Tækniþróunarsjóði væri einfaldlega skipt milli landshluta í hlutfalli við mannfjölda. Enn betra væri þó að landshlutabundnir sjóðir fyrir nýsköpum væru viðbót við nýsköpunarstuðning á Íslandi.

Það er hægt að fara lengra með þessa hugsun. Af hverju er ekki landhlutabundin úthlutun á launasjóði rithöfunda? Það myndi auðga menninguna að rithöfundar væru að skrifa á fleiri stöðum en í 101 Reykjavík. Af hverju er ekki landshlutabundin úthlutun á fé til leiklistar? Í landi með svo útbreidda leiklistarhefð, af hverju er nauðsynlegt að styrkja hana meira á hbs en annarsstaðar?

Aukið og landshlutabundnara fé, þó ekki væri nema til nýsköpunar í atvinnulífi, væri verulegur styrkur fyrir samfélög í Norðausturkjördæmi.

Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri