Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Ráðdeild í ríkisrekstri

Flestir hafa einhverja hugmynd um hvað orðið ráðdeild merkir. Einföld skýring á ráðdeild er að haga starfi sínu á heimili, í fyrirtæki, stofnun eða í ríkisrekstri með aðhaldi, hagsýni, endurbótum og fyrirhyggju.

Nokkuð hefur skort upp á að ríkisrekstur okkar Íslendinga í heild geti fallið undir hugtak æskilegrar ráðdeildar. Að sjálfsögðu eru mjög margar jákvæðar undantekningar á því, en því miður fellur fjöldi misgáfulegra aðgerða ríkis og stofnana ekki innan þess ramma sem telst til góðrar ráðdeildar.

Í fjölmiðlum dagsins og í ótöldum greinum og úttektum má finna margar beinskeyttar athugasemdir um ómarkvisst aðhald og eftirlit, óarðbærar fjárfestingar, óhagræði í rekstri, hyglun í ráðningum og áfram mætti telja.

Hvernig er hægt að bæta úr þessu, auka ráðdeild í rekstri ríkisins, auka ábyrgð stjórnmálamanna og stjórnenda í ákvarðanatöku og eftirfylgni og vera í sífelldri leit að sem hagkvæmastri notkun eða dreifingu tekna ríkissjóðs?

Í því sambandi kemur hugtakið framleiðni að góðum notum, en almenn skýring á framleiðni er; hlutfall milli kostnaðar og verðmætis sem mælikvarði á afkastagetu fyrirtækis/stofnunar, þ.e. samanburður á því sem lagt er inn og fengið til baka. Ýmsir mælikvarðar eru notaðir til þess að mæla framleiðni s.s. framleiðni á vinnumarkaði (afköst á hverja vinnustund), framleiðni peninga mæld með ávöxtun (hversu mikilli ávöxtun hver króna skilar eiganda sínum), framleiðni tækja og fjárfestinga (afkastageta og nýting) og framleiðni velfarnaðar svo eitthvað sé nefnt.

Ráðdeild í ríkisrekstri skýrist best af sífelldri leit að sem bestri notkun þeirra fjármuna sem renna inn í ríkiskassann, en líta má á tekjur ríkisins sem takmarkaða auðlind og ekki hægt að uppfylla allar óskir landsmanna í einu vetfangi. Skynsöm ráðstöfun útgjalda, launa og annars rekstrarkostnaðar er það sem stjórnmálamenn verða að horfa til þegar loforðum er kastað fram um að bjarga öllu. Fjárfestingar í byggingum, skólum, sjúkrahúsum, vegum og ekki síst í mannviti þurfa jafnframt að skila jákvæðu endurgjaldi. Endanlega byggist þetta allt á réttu mati og að tölulegar mælingar séu notaðar til að meta raunverulega framleiðni í ríkisrekstri.

Þetta virðist frekar einfaldur boðskapur í flóknum heimi ríkisrekstrar, ráðuneyta og stofnana.

Engu að síður er umgjörðin rökrétt; að fá sem mesta og besta nýtingu út úr fjármunum og auðlindum þjóðarinnar fyrir fólkið í landinu. Viðreisn er flokkur sem leggur fram skynsamlegar tillögur í útgjöldum ríkisins og að þær tillögur séu fjármagnaðar og skili framlegð til samfélagsins. Það er ráðdeild í ríkisrekstri.

Eiríkur Björn Björgvinsson skipar 1. sæti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi. Valtýr Þór Hreiðarsson skipar 17. sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi.