Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Opnum dyrnar fyrir gæfu og gleði

Formaður Flokks fólksins, Inga Sæland, hefur svo sannarlega barist með oddi og egg fyrir þjóðarátaki gegn fíknisjúkdómnum. Nú í aðdragand kosninga höfum við frambjóðendur Flokks fólksins heimsótt Rauða krossinn, lögregluna, heilbrigðisstofnanir og Sjúkrahúsið á Akureyri og öllum framangreindum aðilum ber saman að bæta þarf úrræði fyrir þá sem þjást af völdum geð- og fíknisjúkdóma.
 
Staðan er alvarleg um þessar mundir og mörg hundruð einstaklingar bíða eftir því að komast í meðferð, hvort heldur sem um er að ræða skammtíma- eða langtímameðferð.
 
Bæta þarf sömuleiðis úrræði og stuðning fyrir þá sem lokið hafa meðferð til þess að tryggja fólki langtíma stöðugleika. Það er mikilvægt að viðurkenna fíknisjúkdóminn ekki aðeins í orði heldur einnig á borði, þannig að hvorki úrræði né rannsóknir séu hornreka í heilbrigðiskerfinu.
 
Margfalt fleiri deyja árlega af völdum þessa sjúkdóms en þeir sem láta lífið vegna umferðarslysa og stór hluti þeirra sem frá okkur falla er kornungt fólk. Hér er því verk að vinna fyrir íslenskt samfélag og ekki aðeins fyrir stjórnvöld heldur er nauðsynlegt að virkja þann kraft sem býr í frjálsum félagasamtökum, svo sem íþrótta og æskulýðsfélögum og góðgerðarfélögum.
 
Brýn nauðsyn er að ráðast í forvarnir en mikilvægur liður í því er að bæta andlega líðan ungmenna og tryggja að þau finni kröftum sínum viðnám, til dæmis í tónlist og sköpun líkt og það góða starf sem fór fram í Rósenborg á Akureyri. Sama á við um að upplýsa ungt fólk um að fikt á djamminu geti orðið fyrsta skrefið á vondri leið.
 
Huga þarf sértaklega að stöðunni landsbyggðinni
 
Fíknisjúkdómurinn er síst betri en aðrir alvarlegir sjúkdómar hvað það varðar að afleiðingarnar leggjast með þunga á alla fjölskyldu og aðra nákomna. Þetta er fjölskyldusjúkdómur. Staðan er snúnari fyrir sjúklinga og aðstandendur utan að landi enda úrræðin í meiri fjarlægð og því augljóslega ekki eins auðsótt.
 
Opna þarf fleiri dyr fyrir fíknisjúklinga á landsbyggðinni en þau úrræði sem eru þó til staðar eru bæði afar takmörkuð, svo sem á borð við göngudeild SÁÁ á Akureyri og auk þess glíma þau við mikla rekstraróvissu hvað varðar fjárframlög vegna þess að ríkisstjórnir fyrri ára hafa ekki gert almennilega samninga um rekstur þeirra.
 
Það skortir á sérhæfð úrræði fyrir fíknisjúklinga á geðdeildinni á Akureyri og ekkert áfangaheimili er á Akureyri!
 
Nú í komandi Alþingiskosningum gefst kjósendum tækifæri á að veita Flokki fólksins brautargengi sem mun áfram vinna að krafti að því að leysa sjúklinga úr viðjum fíknar.
 
Sigurjón Þórðarson, Katrín Sif Árnadóttir, Sigurður Ingimarsson og Tinna Guðmundsdóttir eru frambjóðendur Flokks fólksins í Norðausturkjördæm í alþingiskosningunum 30. nóvember