Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Missa ekki það sem við höfum

NORÐAUSTURKJÖRDÆMI – 1

Sem áhugamaður um byggðamál og fræðimaður ætla ég skrifa hér átta stuttar greinar um mikilvægustu málin í Norðausturkjördæmi sem ríkisvaldið getur haft áhrif á. Þetta eru málin sem mér finnst að frambjóðendur ættu að vera að tala um og vinna að næstu fjögur árin. Þetta er mitt mat, mín skoðun og auðvitað meta aðrir þetta öðruvísi en ég. Greinarnar koma í mikilvægisröð eins og ég met hana, mikilvægasta málið fyrst.

Í fyrsta sæti er að missa ekki það sem við höfum. Við höfum ýmiskonar þjónustu og starfsemi ríkisins í kjördæminu sem ekki er sjálfgefið að við höldum ef við erum ekki vakandi.

Fyrir nokkrum árum var fangelsið á Akureyri lagt niður, exelskjalið sagði að með því myndi ríkið spara peninga. Áhrifin voru þau að ef það þurfti að hneppa mann í varðhald þurftu lögregluþjónar að eyða heilu og hálfu dögunum í að aka með viðkomandi til Reykjavíkur og til baka í stað þess að sinna löggæslustörfum í heimabyggð. Mér skilst að lögreglan á Norðurlandi eystra hafi fengið auka stöðugildi til að standa í akstrinum en ég er ekki viss um að nokkur viti hvort af þessu hlaust raunverulegur sparnaður og betri þjónusta. Brenndum bensínlítrum fjölgaði hins vegar.

Fyrir ári síðan boðuðu yfirvöld sameiningu MA og VMA. Í sameinuðum skóla átti að vera feykilegur niðurskurður í stoðþjónustu við nemendur miðað við óbreytt skólahald. Sem betur fer tókst heimamönnum í þetta skiptið að standa atlöguna af sér. Eftir stendur spurningin: af hverju hafa ekki verið boðaðar neinar sameiningar á hbs (höfuðborgarsvæðinu)? Þar er fullt af framhaldsskólum, sumir hlið við hlið eins og MR og Kvennó. Er kannski auðveldara fyrir ráðherra og ráðuneytisfólk að hefja hnífinn á loft í fjarlægum landshlutum? Oft hefur það verið tilfinningin.

Nú er Háskólinn á Akureyri á viðkvæmum stað. Yfirvöld vilja leggja nafn hans niður og sameina hann háskóla í Reykjavík. Ef það hefst í gegn er mikil hætt á að sameinaður skóli muni síga hægt en örugglega til Reykjavíkur. Það fer eftir hvernig á málum verður haldið.

Hvað verður næst vitum við ekki. Mun einhver Excelsnillingur komast að því að réttast sé að leggja Umdæmissjúkrahús Austurlands niður eða jafnvel SAk? Það myndi auðvitað koma mjög á óvart en sameiningar- og niðurskurðaráfom framhaldsskólanna á Akureyri komu eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Hér er ekki lagt til að engum stofnunum megi breyta eða auka sérhæfingu þeirra með betri samgöngum, það er oft skynsamlegt. En í stóru þjónustugeirum ríkisins þurfum við að halda vöku okkar og missa ekki það sem við höfum.

Jón Þorvaldur Heiðarsson er lektor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri