Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Lífæð landsbyggðarinnar

Það er ekki ósanngjarnt að segja að samgöngur séu lífæð landsbyggðarinnar. Fyrir íbúa landsbyggðarinnar hafa góðar samgöngur ekki aðeins áhrif á lífsgæði heldur einnig á efnahagslega þróun, aðgengi að þjónustu og möguleikann til vaxtar. Þetta þekkjum við vel hér í Norðausturkjördæmi enda hafa fjarlægðir, veðurfar og takmarkaðrar tengingar milli svæða áhrif á daglegt líf íbúa og rekstur fyrirtækja. Samfylkingin lítur á uppbyggingu samgangna sem mikilvægan þátt í byggðastefnu og nauðsynlega til að halda úti öflugum samfélögum enda vitum við einnig að góðar samgöngur eru lykillinn að því að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun.

Jarðgangagerð er eitt mikilvægasta verkfæri sem við höfum til að tengja samfélög saman og bæta aðgengi. Fyrir landsbyggðina getur gerð jarðganga skipt sköpum fyrir lífsgæði og öryggi, ekki síst á svæðum þar sem fjallvegir og hættuleg veðurfarsskilyrði hamla daglegum ferðum.

Samfylkingin lítur á jarðgangagerð sem lykilþátt í framtíðarskipulagi landsins. Það er nauðsynlegt að setja slíkar framkvæmdir í forgang í samræmi við raunverulegar þarfir landsbyggðarinnar. Fjárfesting í jarðgöngum er fjárfesting í öryggi og tækifærum fyrir alla landsmenn. Með slíkum aðgerðum tryggjum við að samgöngukerfið okkar verði í stakk búið til að mæta þörfum nútímans og framtíðarinnar.

Samgöngur eru ekki aðeins vegir, jarðgöng og brýr – þær eru byggðamál. Þær hafa bein áhrif á samkeppnishæfni landsbyggðarinnar, hvort sem um ræðir ferðamennsku, atvinnuþróun eða aðgengi að nauðsynlegri þjónustu. Við verðum að tryggja að landsbyggðin njóti jafnra tækifæra til vaxtar. Það kallar á metnaðarfulla samgöngustefnu, sem tryggir jafna dreifingu fjárfestinga í samgöngumannvirkjum.

Öflug samgöngukerfi eru því ekki aðeins forsenda lífsgæða heldur lykill að jöfnuði milli landshluta. Með því að fjárfesta í jarðgöngum, bæta vegakerfi og styrkja tengingar tryggjum við að landsbyggðin blómstri. Það er bæði hagkvæmt og réttlátt. Landsbyggðin á skilið að tengjast betur. Það er kominn tími til að sækja fram.

Stefán Þór Eysteinsson er í 5. sæti á lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum 30. nóvember