Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Ingvar Þóroddsson vill 1. sæti hjá Viðreisn

Ingvar Þóroddsson tilkynnti um helgina að hann stefni á forystusæti fyrir Viðreisn í Norðausturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 30. nóvember næstkomandi. Hann sé vel til þess fallinn að tryggja flokknum þingsæti í kjördæminu og tala máli kjósenda í landshlutanum.

Ingvar er 26 ára Akureyringur. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og lærði verkfræði við Háskóla Íslands og Berkeley háskóla í Kaliforníu. Að loknu meistaranámi sneri Ingvar heim til Akureyrar og kennir í dag stærðfræði og eðlisfræði við MA. Foreldrar hans eru Þóroddur Ingvarsson og Aðalheiður Rósa Jóhannesdóttir, læknar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

„Mín grunngildi hafa nokkurn veginn alltaf verið þau sömu. Ég trúi á frelsi einstaklingsins, sterkt markaðshagkerfi, alþjóðasamstarf og að samfélagið skuli tryggja öllum jöfn og góð tækifæri,“ segir í tilkynningu frá Ingvari sem kveðst horfa björtum augum fram á veginn.

Hann segist jafnframt ætla að leggja áherslu á menntamál en staðan í þeim málaflokki, sem birtist meðal annars í PISA-könnunum og læsi íslenskra barna við lok grunnskólagöngu, valdi honum áhyggjum. Hann telur reynsluna af kennarastarfinu vera gott veganesti í að takast á við það verkefni og segist hlakka til að eiga samtalið við fólk í kjördæminu.

Ingvar vermdi þriðja sæti á framboðslista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningunum 2021. Frá þeim tíma hefur Ingvar sinnt trúnaðarstörfum innan flokksins og var til að mynda kjörinn varaforseti ungliðahreyfingar flokksins haustið 2021 og hefur setið í Norðausturráði Viðreisnar síðan 2022.

Hann segir það fagnaðarefni að tími ríkisstjórnarinnar sé liðinn. Kjörtímabilið hafi einkennst af óreiðu í ríkisfjármálum og óeiningu, sem hafi leitt til hárrar verðbólgu og vaxta, sem bitni ekki síst á ungu fólki og barnafjölskyldum. Þá hafi orkumálum verið haldið í gíslingu í samstarfi ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Allt þetta komi niður á almenningi og fyrirtækjum í landinu.

„Ég vil leggja mitt af mörkum svo hér geti tekið við ríkisstjórn með Viðreisn innanborðs, sem hefur frjálslynd gildi að leiðarljósi, tekst á við verðbólguna og ryður hindrunum úr vegi fólks og fyrirtækja, í stað þess að búa þær til.“ segir Ingvar.

Ingvar segist sjá mikil tækifæri í Norðausturkjördæmi og telur mikilvægt að kjördæmið hafi öfluga og fjölbreytta málsvara á þingi. „Ég ætla mér að vera öflugur fulltrúi Norðausturkjördæmis, Viðreisnar, og ungs fólks og barnafjölskyldna um land allt, hljóti ég umboð flokksins og kjósenda til þess.“