Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Heimur á villigötum

Í Þýskalandi öðluðust ný lög gildi þann 1. nóvember. Segja má að það sé ekki bara sorgardagur Þjóðverja heldur heimsins. Lögin bera heitið „Gesetz über die Selbstbestimmung in Bezug auf den Geschlechtseintrag.“

Lögin fjalla um sjálfákvörðunarrétt, ekki bara fullorðinna heldur líka barna. Lýðræðisflokkurinn styður einstaklingsframtakið og að öll lög sem skerða réttindi einstaklings séu ólög. En hvað þegar börn eru annars vegar? Börn máta sig við kynhneigð sína og sjálfsmynd sem getur verið alls konar.

Hér á landi teljum við það farsælt að foreldrar og forsjármenn taki ákvörðun fyrir börn sín, því börn hafa ekki reynslu, þekkingu eða afl til að standa á móti illum öflum. Við þurfum ekki annað en taka tóbak, áfengi og fíkniefni sem dæmi. Heili barns þroskast ekki að fullu fyrr en það er ungmenni og það vert að muna.

Lögin í Þýskalandi gera börnum kleift að „skipta um kyn“, það vil segja, drengur vill vera stúlka og öfugt. Líffræðilega óska þau ekki eftir breytingum heldur skipta um skráningin á kyni.

Breyting á kennitölu eins og í mörgum löndum, byggð á upplifun einstaklings.

Þegar einstaklingur hefur skipt um skráningu eða kennitölu fær hann lagalegan rétt að einkarýmum skráningarkynsins. Ef karlmaður í Þýskalandi skráir sig sem konu fær hann aðgang að baðklefa kvenna og öðrum einkarýmum. Víða um heim var lögunum mótmælt, á öllum stöðum við sendiráð Þýskalands.

Eftir lagasetninguna spyrja konur, hvað með öryggi kvenna og stúlkna? Hvað verður gert til að sporna við misnotkun laganna?

Annað sem kemur fram í þessum lögum er að nú má ekki vara við að karlmaður, sem klæðir sig sem kona, sé í búningsklefa meðal stúlkna. Það gæti kostað viðkomandi tíu þúsund evrur ef karlmaðurinn móðgast og kærir. Tjáningarfrelsið sem Lýðræðisflokknum er annt um varð að engu í Þýskalandi.

Þegar við erum komin á þennan stað, að ríki heims virða að vettugi tjáningarfrelsið, öryggi kvenna og stúlkna þá eru við illa stödd. Þá skiptir Barnasáttmáli, réttindaskóli UNICEF og annað í þeim dúr sem kemur frá útlandinu engu máli. ENGU!

Afnema eða breyta lögunum

Hér á landi gilda lög um kynrænt sjálfræði. Margir þingmenn samþykktu lögin án þess að setja inn nokkurn fyrirvara um réttindi eða réttarstöðu kvenna og stúlkna. Stjórnmálamenn samþykktu lög, þar sem stúlkur og konur bera skarðan hlut frá borði.

Þrátt fyrir þessa samþykkt þá hreykja þingmenn sér af að vernda réttindi kvenna og stúlkna. Fór eitthvað framhjá þeim þegar þeir samþykktu lögin um kynrænt sjálfræði? Nokkrir þingmenn vilja að menn geti skipt um kyn árlega og vegabréf sem yrði á kostnað skattborgara.

Lýðræðisflokkurinn styður sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga, en annað gildir um ólögráða börn í mikilvægum málaflokkum þar sem þau geta skaðað sig.

Helga Dögg Sverrisdóttir er grunnskólakennari og sjúkraliði, og er í 2. sæti á lista Lýðræðisflokksins í Norðausturkjördæmi við alþingiskosningarnar 30. nóvember.