Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Eiríkur Björn efstur, Sigríður í 2. sæti

Sigríður Ólafsdóttir og Eiríkur Björn Björgvinsson.

Eiríkur Björn Björgvinsson, sviðsstjóri og fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og á Fljótsdalshéraði, verður í efsta sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi í komandi þingkosningum. Akureyri.net greindi frá því í gær en flokkurinn hefur nú sent frá sér tilkynningu þar um. Þar kemur einnig fram að Sigríður Ólafsdóttir, mannauðsráðgjafi og markþjálfi á Akureyri, skipi 2. sæti á listanum. 

Í tilkynningunni segir:

„Eiríkur, sem er menntaður íþróttafræðingur, hefur sterk tengsl við kjördæmið. Hann var íþrótta- og tómstundafulltrúi á Egilsstöðum frá 1994 til 1996 og tók þá við starfi deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar.

Árið 2002 var hann ráðinn bæjarstjóri sveitarfélagsins Austur-Héraðs. Tveimur árum síðar var hann ráðinn bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs sem varð til við sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi.

Eiríkur fór aftur norður þegar hann var ráðinn bæjarstjóri á Akureyri árið 2010 og gegndi því starfi í átta ár. Í dag starfar hann sem sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar.

Eiríki er lýst af vinum sínum sem úrræðagóðum, fylgnum sér og skemmtilegum. Hann segir mikilvægt að hlusta á væntingar og þarfir íbúa Norðausturkjördæmis fyrir komandi kosningar og setja fólkið í fyrsta sæti. Tryggja eigi almannahagsmuni umfram sérhagsmuni.

„Það þarf að bæta og efla skilning ríkisins á stöðu fólks í kjördæminu og á landsbyggðunum almennt og tryggja jöfnuð milli landshluta. Þá þarf að skapa jarðveg fyrir ungt fólk til að lifa og starfa í kjördæminu og horfa til framtíðar, meðal annars með stuðningi við nýsköpun og frumkvöðla,“ segir Eiríkur.

Aðspurður hvers vegna hann býður sig fram fyrir Viðreisn segir hann hugmyndafræði og grunnstefnu flokksins falla vel að hans gildum.

„Það er frjálslyndi og jafnrétti, réttlátt samfélag, efnahagslegt jafnvægi og alþjóðleg samvinna.“

Sigríður, sem alltaf er kölluð Sigga, hefur búið á Akureyri í aldarfjórðung. Hún er menntuð í uppeldis- og menntunarfræði, stjórnun og með PCC-vottun sem markþjálfi.

Sigga starfaði í tæp tuttugu ár sem ráðgjafi og stjórnandi hjá Gallup/Capacent en stofnaði árið 2017 eigið ráðgjafafyrirtæki á Akureyri, Mögnum. Þar sinnir hún meðal annars markþjálfun, fræðslu og mannauðsráðgjöf.

Vinir Siggu lýsa henni umhyggjusamri, lausnamiðaðri og drífandi. Hún segir að fyrir sér sé mikilvægt að í Norðausturkjördæmi geti fólk blómstrað, eflst og lifað lífi sínu með reisn.

„Kjördæmið er víðfeðmt og íbúar þess eiga bæði sameiginlegan veruleika en einnig ólíkan veruleika og viðfangsefni. Það sem við eigum öll sameiginlegt er að við erum fólk. Þess vegna vil ég leggja áherslu á samtal, hlustun og sameiginlega leit okkar að lausnum. Þá vil ég einnig leggja áherslu á nýsköpun og hugvit til að fjölga atvinnutækifærum í kjördæminu og auka fjölbreytni atvinnulífsins,“ segir Sigga.

Hún kveðst hafa gengið til liðs við Viðreisn meðal annars vegna þess að flokkurinn sé lausnamiðaður og óhræddur við að hugsa hlutina upp á nýtt, líkt og hún.

„Í störfum mínum undanfarin ár hef ég unnið með fólki og skipulagsheildum sem hafa það að markmiði að læra og ná árangri. Mig langar að færa það yfir í víðara samhengi, yfir á allt samfélagið. Viðreisn vill ná árangri og að við sem samfélag eflumst og lærum hvort af öðru. Þess vegna er ég í framboði fyrir Viðreisn.“

Heildarlisti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi verður kynntur von bráðar.“