Fara í efni
Alþingiskosningar 2024

Áfram sterkar konur í leiðtogahlutverkum!

Megum við eiga von á kynjaslagsíðu eftir kosningar?

Þegar stórt er spurt.

Fyrir okkur áhugafólkið um stjórnmál þá er spennan fyrir kosningar ekki ósvipuð þeirri sem gerir vart við sig á aðventunni, þó sjaldan jafn bókstaflega og nú! Ég skal samt viðurkenna að það runnu á mig tvær grímur þegar listarnir fóru að birtast.

Svo ég segi það hreint út þá fannst mér hrútalykt af sumum þeirra og fór að óttast bakslag í jafnréttismálum, allavega á vettvangi Alþingis.

Þetta var tilfinningin en hvernig sannreynum við hvort hún á við rök að styðjast eða ekki?

Fylgið er á töluverðu flugi milli kannanna og því örugglega ótímabær partíleikur að raða þingsætum milli flokka. Enda þurfa ekki miklar hreyfingar að verða í hverju kjördæmi fyrir sig til að landslagið breytist töluvert – og mig grunar að svona verði þetta nú fram að kosningum.

En hvernig er þá best að spá í hugsanlega eða líklega kynjaskiptingu á Alþingi?

Hér horfi ég til allra kjördæma og rýni í þrjú efstu sæti þeirra lista sem mælast þar með 5% fylgi eða meira í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup. Ég dreg línuna við þrjú efstu sætin því enginn flokkur er í dag með fleiri en þrjá þingmenn í hverju kjördæmi.

(auðvitað er það ekki þannig að allir flokka geti fengið þrjá þingmenn í hverju kjördæmi, en hlutfallið gefur ákveðna vísbendingu um hvort von sé á kynjaslagsíðu eða ekki)

Miðað við þessa samantekt er alls ekki útilokað að við fáum fleiri karla en konur inn á þing eftir kosningar.

Mesta karlaslagsíðan er hjá M-lista, þar sem konur skipa tæp 2 af 5 efstu sætunum.

Mesta kvennaslagsíðan er hjá V-lista, en þess ber þó að geta að í fyrrnefndri könnun mælast Vinstri Græn yfir 5% í aðeins einu kjördæmi.

Það kom mér auðvitað ekki á óvart að Framsókn stendur vel að vígi þegar kemur að jöfnum tækifærum karla og kvenna. Ekki nóg með það að skiptingin sé jöfn í þremur efstu sætum, skiptingin er líka jöfn þegar við horfum til oddvitanna í öllum kjördæmum, þar sem þrjár konur og þrír karlar skipa efsta sætið á listum flokksins. Að endingu má nefna að Framsókn er eini flokkurinn sem teflir fram konu í oddvitasæti í Norðausturkjördæmi.

Við þurfum sannarlega áfram á sterkum konum að halda í leiðtogahlutverk. Á hinum pólitíska vettvangi sem öðrum. Það skiptir líka máli, fyrir þróun jafnréttismála í landinu, að það sé ekki mikil eða langvarandi kynjaslagsíða á löggjafarþinginu okkar. Ég ætla nú að leyfa mér að vera bjartsýnn í þessum efnum, jafnvel þótt ákveðin teikn séu á lofti um aðra stöðu.

Gunnar Már Gunnarsson er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.