Fara í efni
Umræðan

Metnað í velbúna innlandsflugvelli

Innanlandsflugvellir eru mikilvægir inniviðir sem þjónusta fólk og fyrirtæki. Þeir eru liður í almenningssamgöngum og flutninganetinu ásamt því að vera hluti af öryggisneti og heilbrigðiskerfi landsins. Einnig gegna þeir mikilvægu hlutverki við móttöku ferðamanna, og þá eru flugvellirnir á Egilsstöðum, Akureyri og Reykjavík hlekkir í alþjóðafluginu þar sem þeir gegna hlutverki varaflugvalla auk þess að taka við flugumferð beint erlendis frá. Íbúar í Norðausturkjördæmi hafa mikla hagsmuni af velbúnum flugvöllum. Einnig skapa þeir samfélaginu öllu fleiri tækifæri til framfara.

Síðastliðinn áratug hefur lítið sem ekkert verið framkvæmt á umræddum flugvöllum. Alþjóðaflugvellirnir á Egilsstöðum, Akureyri og Reykjavík þarfnast viðhalds. Jarðhræringarnar á Reykjanesi hafa enn og aftur beint sjónum að nauðsyn þess að eiga örugga varaflugvelli í fleiri en einum landshluta.

Framkvæmdir í farvatninu

Þörf er á malbikun flugbrautar á Egilsstöðum og uppbyggingu flughlaðs eða viðbótarflugbrautar við hlið vallarins. Við afgreiðslu samgönguáætlunar var gert ráð fyrir að fjármagn fyrir flughlaði kæmi af fjárfestingaátaki en ISAVIA fjármagnaði malbikun flugbrautar ásamt rekstri vallarins. Vissulega hafa efnahagsleg áhrif COVID áhrif á áætlanir ISAVIA, en hvergi má hika við að koma þessum verkefnum í framkvæmd. Nú hefur forgangsröðun þessara verkefna á Egilsstöðum tekið breytingum og ákveðið að malbikun flugbrautar fari fram í sumar sem liður í fjárfestingarátaki ríkissjóðs.

Á síðasta ári var tekin ákvörðun um stækkun flugstöðvar og flughlaðs á Akureyri. Ákveðið var að fjármagna verkefnin í gengum sérstakt fjárfestingarátak stjórnvalda. Hönnunarvinna og verklegar framkvæmdir eru hafnar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki vorið 2023 með malbikun nýs flughlaðs.

Reykjavíkurflugvöllur verður í Vatnsmýrinni næstu árin og þar er brýnt að bæta aðstöðu fyrir alla notendur. Þá er gert ráð fyrir viðhaldi á völlunum á Húsavík og Grímsey á næstu 3 árum og að ljósabúnaði verði komið upp á Norðfjarðarvelli.

Vandaðri áætlanir

Áætlanagerð hefur reynst nokkuð snúin í þessum verkefnum m.a. vegna þess að við afgreiðslu samgönguáætlunar þarf Alþingi að treysta á upplýsingar frá ISAVIA um framkvæmdaþörf. Ábyrgð ISAVIA á rekstri flugvallanna og á forgangsröðun fjármuna til flugvalla er því mikil, enda hefur enginn annar sömu yfirsýn yfir ástand flugvalla eða sérþekkingu á þörfum flugsins. Þá þekkingu þarf svo að flétta við þarfir samfélagsins alls við gerð samgönguáætlunar. Alþingi verður að gera þá kröfu að á hverjum tíma liggi fyrir greining á þörf fyrir framkvæmdir á flugvöllum, kostnaðaráætlanir og forgangsröðun verkefna til lengri tíma og við það þarf ISAVIA að sýna meiri metnað.

Kröfur til ISAVIA

Allar framkvæmdir við innanlandsflugvelli eru á ábyrgð ISAVIA en fjármagnaðar úr ríkissjóði. ISAVIA ætti að taka yfir fjármögnun varaflugvallakerfisins eins og nýsamþykkt Flugstefna gerir ráð fyrir. Gert var ráð fyrir að ISAVIA tæki við rekstri og fjármögnun hluta viðhalds á Egilsstaðaflugvelli við upphaf árs 2020, en það frestaðist vegna COVID. Samt sem áður er nauðsynlegt að ISAVIA sýni metnað og noti tímann vel núna til að hlúa að varaflugvallakerfinu og búa í haginn áður en flugumferð eykst á ný. Flest bendir til þess að ferðavilji verði mikill að loknu COVID.

Kröfur til ISAVIA og hlutverk varðandi innanlandsflugið verður að skýra. Væri t.d. eitthvað óeðlilegt að ISAVIA fjármagni hraðari uppbyggingu varaflugvallanna núna?

Líneik Anna Sævarsdóttir er alþingismaður Norðausturkjördæmis fyrir Framsóknarflokkinn og nefndarmaður í Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

Læknadeild við Háskólann á Akureyri?

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 09:00

Verður ársins 2025 minnst fyrir efndir kosningaloforða í málefnum eldra fólks?

Björn Snæbjörnsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 12:30

Háspennulínur í lofti við íbúabyggð á Akureyri?

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 16:00

„Þetta er algerlega galið“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
05. janúar 2025 | kl. 10:00

Veikar varnir Akureyrar

Ólafur Kjartansson skrifar
03. janúar 2025 | kl. 18:30

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00