Fara í efni
Umræðan

Seðlabankastjóri á hálum ís

Sveiflur í efnahagslífi Íslands eru að jafnaði meiri og dýpri en gengur og gerist í öðrum vestrænum ríkjum eins og landsmenn hafa fengið að kenna á með reglulegum hætti. Það er því án vafa ekki alltaf auðvelt að vera bankastjóri seðlabanka örríkisins Íslands. Mikilvægt er að Seðlabankastjóri hverju sinni ofmetnist ekki í starfi og njóti trausts og trúnaðar landsmanna hvar í stétt sem þeir standa, sýni þeim skilning og tali ekki niður til þeirra. Á þetta hefur að mínu mati skort að undanförnu hjá núverandi Seðlabankastjóra.

Talað niður til almennings
Jafnvel þó að tíð ummæli Ásgeirs Jónssonar Seðlabankastjóra um að sólarlandaferðir landsmanna hafi kallað á vaxtahækkanir séu sagðar í hálfkæringi og að um einhverskonar líkingamál sé að ræða af hans hálfu, þá fylgir þeim nokkur alvara. Hið sama má segja um ummæli hans um neyslugleði almennings sem að hans mati ætti að hætta að eyða peningum að öðrum kosti verði kjör þeirra skert með vaxtahækkunum. Seðlabankastjóri hefur svo lýst þeirri skoðun sinni og þá væntanlega fyrir hönd Seðlabankans að út í hött væri fyrir ríkið að styðja við skuldara með vaxtabótum enda séu þeir að græða á hækkandi verði fasteigna að undaförnu og vaxtamun á lánum með föstum vöxtum annarsvegar og verðtryggðum hins vegar. Seðlabankastjóri hefur margsinnis látið það koma fram að landsmenn geti átt von á refsingu bankans ef þeir fylgi ekki ráðum hans og sömuleiðis ef ríkisstjórnin fari ekki að tilmælum Seðlabankans. Í þessu sambandi er ágætt að hafa í huga að það er eitt meginhlutverk Seðlabankans að stuðla að framgangi stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, ekki öfugt.

Hér verður ekki fjallað um réttmæti vaxtahækkana Seðlabankans að undanförnu eða önnur viðbrögð hins opinbera til að hafa stjórn á efnahagsmálunum. Það er ekki léttvæg ákvörðun að hækka vexti eins og bankastjóri hefur réttilega bent á og afleiðingar vaxtahækkana reynast mörgum erfiðar. Það skiptir því máli hvernig æðstu embættismenn landsins tala til fólks þegar þeir eru að rökstyðja svo íþyngjandi aðgerðir sem vaxtahækkanir óneitanlega eru. Það fer ekki vel á því að tala niður til fólks, gera lítið úr aðstæðum þess eða hæðast að almenningi í landinu af slíku tilefni.

Almenningur til ábyrgðar
Það verður enginn mettur af hækkandi fasteignaverði. Leikskólagjöld, tómstundir, fatakaup, rafmagnsreikningar eða matarinnkaup verða heldur ekki greidd með hækkandi fasteignaverði eða vaxtamun á lánum. Vaxtahækkanir eru til þess gerðar að taka peninga úr umferð, færa launatekjur af heimilisbókhaldi fólks inn á reikninga bankans í formi vaxta, hvort sem fólk á fyrir því eða ekki. Vaxtahækkanir bitna augljóslega harðast á þeim sem skulda, fjölskyldum og barnafólki. Almenningur þarf alltaf að axla þungann af efnahagslegum erfiðleikum hverju sinni, svo einfalt er það. Það færi þess vegna vel á því að Seðlabankastjóri sem og aðrir í sambærilegri stöðu myndu tala af meiri virðingu um það fólk sem aftur og aftur er kallað til ábyrgðar þegar illa árar í efnahagslífi þjóðarinnar og er látið bera þyngstu byrðarnar.

Traust og virðing
Ásgeir Jónsson hefur það til að bera til að geta orðið farsæll Seðlabankastjóri. En hann á enn talsvert í land með það og ekki þá síst að öðlast nauðsynlegt traust landsmanna sem slíkur. Það traust þarf að vera áunnið og reist á gagnkvæmri virðingu. Framganga Seðlabankastjóra að undanförnu og viðhorf gagnvart almenningi eins og það hefur endurspeglast í orðum hans er áhyggjuefni. Vonandi mun Seðlabankastjóri vaxa í starfi sínu í sátt við fólkið í landinu og öðlast virðingu þess og traust með tímanum.

Björn Valur Gíslason er sjómaður á Akureyri

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00