Fara í efni
Fréttir

Zonta auglýsir eftir umsóknum um styrki

Hluti listaverkanna sem voru á uppboði Zontaklúbbsins Þórunnar hyrnu um daginn.

Zontaklúbburinn Þórunn hyrna hefur auglýst eftir umsóknum um styrki úr sjóði sem stofnaður var til að styðja við stúlkur, konur og kvár sem eru í listnámi eða vinna að listsköpun, að því er segir í tilkynningu frá klúbbnum.

Klúbburinn safnaði 1,1 milljón króna á dögunum þegar hann hélt uppboð á listaverkum þegar haldið var upp á 40 ára afmæli hans.

„Það er með miklum hlýhug sem við Zontakonur í Þórunni hyrnu þökkum öllum þeim sem gáfu verk á listaverkauppboðið okkar, komu í Deigluna 5. október s.l., buðu í listaverkin á vefnum eða lögðu okkur lið á annan hátt. Alls söfnuðust 1.100.000 krónur sem við erum afskaplega þakklátar fyrir. Allur ágóði af uppboðinu fer í sjóð sem verður notaður til að styðja við stúlkur, konur og kvár sem eru í listnámi eða vinna að listsköpun,“ segir í tilkynningu

Umsóknarfrestur er til 7. nóvember næstkomandi.

Umsóknarblaðið má finna hér á Facebook síðu Þórunnar hyrnu.

„Við stefnum á að úthluta styrkjum á tímabilinu 25. nóvember til 10. desember n.k. þegar árleg ljósaganga Zonta fer fram í tengslum við 16 daga átak Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi.“