Fara í efni
Fréttir

Zonta: 300 þúsund í nemendasjóð VMA

Aðalheiður Steingrímsdóttir, Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari VMA, Sigríður Sía Jónsdóttir og Þórhildur Kristjánsdóttir. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Zontaklúbburinn Þórunn hyrna veitti í gær nemendasjóði Verkmenntaskólans á Akureyri 300.000 krónur. Fénu „skal úthluta til stúlkna/kvenna sem þurfa samkvæmt mati sérfræðinga skólans, fjárhagslega aðstoð til að geta keypt tölvu fyrir námið,“ eins og segir í gjafabréfinu.

Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Zontaklúbbsins, afhenti gjöfina og Benedikt Barðason, aðstoðarskólameistari og formaður stjórnar nemendasjóðsins, veitti henni viðtöku.

Skínandi gott dæmi

„Zontaklúbburinn Þórunn hyrna er hluti af alþjóðahreyfingu Zonta kvenna. Tilgangurinn með starfinu er að styðja við konur og stúlkur og vinna að jafnrétti, bæði með alþjóðlegum verkefnum og líka hérna heima. Þetta sem erum að gera núna, að styðja við stúlkurnar í VMA sem þurfa á því að halda, er skínandi gott dæmi um innanlandsverkefni sem klúbburinn vinnur að,“ sagði Aðalheiður Steingrímsdóttir við Akureyri.net í gær.

Klúbburinn hefur ekki veitt fé í nemendasjóð VMA áður en vitaskuld komið að margvíslegum verkefnum. „Við höfum til dæmis stutt við Velferðarsjóð Eyjafjarðar og höfum stutt konur sem standa höllum fæti til náms, til dæmis við Háskólann á Akureyri, og til þess að komast í sumarfrí með börnunum sínum. Svo höfum við stutt við Kvennaathvarfið, Bjarmahlíð og þannig verkefni,“ sagði Aðalheiður. 

Námsbækur og matarkort

Benedikt Barðason segir „klárlega þörf fyrir nemendasjóðinn.“ Staðan sé þannig að ekki sé jafnt gefið í samfélaginu „og við höfum þurft að styrkja nemendur til kaupa á námsbókum og með matarkortum hér í mötuneytinu. Fólk fær þá að minnsta kosti máltíð einu sinni á dag,“ segir hann við Akureyri.net. Hann segir sem betur fer yfirleitt um tímabundið ástand að ræða en engu að síður sé mjög mikilvægt að geta veitt aðstoð. „Því fylgir oft mikil skömm að þurfa að leita sér aðstoðar og sumir hætta jafnvel í skóla frekar en gera það en sjóðurinn hefur gert okkur kleift að gera gott fyrir marga,“ segir Benedikt Barðason.

  • Nemendasjóður VMA er fjármagnaður af frjálsum framlögum starfsmanna, nemenda, útskriftarárganga og annarra velunnara skólans.