Fara í efni
Fréttir

Yvonne Höller fær Hvatningarverðlaunin

Yvonne Höller í dag með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanni Vísinda- og tækniráðs. Ljósmynd: Arnaldur Halldórsson

Dr. Yvonne Höller, prófessor við Háskólann á Akureyri, hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs 2022. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn á Rannsóknaþingi Rannís sem fór fram á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Þetta kemur fram á vef Háskólans á Akureyri.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vísinda- og tækniráðs, afhenti Yvonne verðlaunin.

Sérfræðingur í taugavísindum

Yvonne Höller fæddist á Ítalíu árið 1985. Hún brautskráðist með meistaragráðu í sálfræði frá háskólanum í Salzburg í Austurríki árið 2007, með framúrskarandi árangri en náminu, sem alla jafna tekur fimm ár, lauk Yvonne á þremur árum. Þremur árum síðar lauk hún doktorsprófi í sálfræði frá sama skóla og fjallaði doktorsverkefni hennar um rannsóknir á meðvitundarröskun. Samhliða doktorsnámi og kennslu hóf hún meistaranám í hagnýtri upplýsingatækni við tölvunarfræðideild háskólans í Salzburg sem hún lauk árið 2012.

Á vef HA segir að Yvonne hafi starfað við kennslu og rannsóknir við háskólann Salzburg að loknu námi, allt þar til ársins 2018 þegar hún fluttist til Íslands og tók við stöðu við sálfræðideild Háskólans á Akureyri. „Yvonne hlaut framgang í stöðu prófessors árið 2020 og starfar sem sérfræðingur í taugavísindum, með sérstaka áherslu á raflífeðlisfræði mannsheilans,“ segir á vef skólans.

Sterkt alþjóðlegt tengslanet

„Rannsóknir Yvonne hafa að miklu leyti snúist um að auka þekkingu á einstaklingum með sjúkdóma eða áverka á miðtaugakerfi, á borð við flogaveiki, mænuskaða, heilabilun og skerta meðvitund. Hún mun á næstu árum leiða umfangsmiklar rannsóknir á samspili áhættuþátta við skammdegislyndisröskun, sem styrktar eru af Rannsóknasjóði, sem og fjölþjóðlegt Evrópuverkefni sem tengist nýsköpun í rannsóknaraðferðum á flogaveiki og taugastarfsemi.

Yvonne hefur myndað sterkt alþjóðlegt tengslanet, sem meðal annars birtist í forystuhlutverki hennar í alþjóðlegum rannsóknaverkefnum, en hefur einnig látið til sín taka í nærsamfélaginu á Akureyri og leiðir meðal annars Umhverfisráð háskólans. Hún átti stóran þátt í undirbúningi meistaranámsleiðar við sálfræðideild háskólans, er vinsæll kennari og er nemendum sínum mikil hvatning og virkjar þau til rannsókna. Yvonne er virk í miðlun sinna rannsókna og hefur meðal annars gefið út hlaðvarp um hugræn taugavísindi, sem finna má á streymisveitunni Spotify, auk þess sem hún hefur sinnt vísindamiðlun til barna á grunnskólaaldri.“

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað fram úr og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987, en markmiðið með þeim er að hvetja vísindafólk til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindafólks.