Fara í efni
Pistlar

Ýviður Taxus baccata, L.

TRÉ VIKUNNAR XIX

Ýviður er lítið ræktaður á Íslandi enn sem komið er. Ef til vill verður breyting þar á þegar fram líða stundir enda eru til mjög góð dæmi um ræktun hans á Íslandi. Eftir því sem skógar vaxa á landinu skapast meira skjól sem hentar prýðilega fyrir ývið. Hann er því ein af þeim tegundum sem líklegt er að muni í framtíðinni verða notaður í auknum mæli í garðrækt og til að auka fjölbreytni í yndisskógum þessa lands Því þykir okkur við hæfi að fjalla aðeins um hann. Svo merkileg er þessi tegund á allan hátt að ekki dugar að fjalla bara um tegundina í einum pistli. Þessi fyrsti pistill verður einskonar inngangs- eða kynningarpistill. Eins og oftast áður, þegar við höfum tekið fyrir einhver þemu í nokkrum pistlum, munum við dreifa þeim á margar vikur og birta aðra pistla á milli. Þetta höfum við til dæmis gert þegar við höfum fjallað um íslenskar víðitegundir (5 pistlar), akasíur (3 pistlar) og tré á Íslandi fyrir ísöld. Þar var þessi inngangspistlill en enn er óvíst hvað greinarnar verða margir þegar upp verður staðið.

Hér á eftir fjöllum við fyrst og fremst um tegundina ývið en eins og í Íslendingasögunum byrjum við á ættfræði. Í þeim er ekki óalgengt að aðalpersónan fæðist ekki fyrr en um þriðjungur er liðinn af sögunni.

Dæmigerður, eldgamall ýviður með hvelfda krónu í Evrópu.

Ættfræði
Til eru margar ættir og margir ættbálkar barrtrjáa. Misjafnt er hvenær þær og þeir komu fram á sjónarsviðið en ætt ýviða er talin tilheyra frumættbálki barrviða. Án efa er ýviður, eða ýr, eins og hann kallast líka, aðaltréð í sinni ætt enda kallast hún ýviðarætt á íslensku en Taxaceae (eftir ættkvíslarheitinu Taxus) á latínu. Innan þeirrar ættar eru taldar fimm eða sex ættkvíslir með 23 tegundum sem flestar vaxa á norðurhveli jarðar (Tudge 2005). Að auki finnast örfáar á suðurhveli jarðar, meðal annars ein tegund á hinni afskekktu Nýju Kaledóníu. Það er eyríki sem alla alvöru barrtrjáaáhugamenn langar til að heimsækja.

Langþekktasta ættkvísl ættarinnar eru ýviðir, Taxus. Hún er líka eina ættkvíslin sem á sér víðfeðmt útbreiðslusvæði. Nú er talið að um þrettán tegundir vaxi í heiminum af ýviðum auk fjölmargra nafngreindra afbrigða og yrkja. Nöfn tegundanna má nálgast hér og hér. Þær finnast í Norður-Ameríku og suður til Hondúras og í Evrasíu allt suður til Malasíu og Indónesíu. Af þessum tegundum hefur evrópski ýviðurinn, Taxus baccata L., mesta útbreiðslu. Sumar heimildir segja að nær sé að tala um sjö eða átta tegundir, frekar en þrettán. Svo eru það þeir sem segja að réttast sé að segja að allur ýviður tilheyri aðeins einni tegund sem skipta megi í mismunandi afbrigði eða stofna. Ástæða þess er sú að svo virðast sem allar tegundirnar geta æxlast saman og búið til frjó afkvæmi. Þessi tillaga nýtur ekki hylli helstu grasafræðinga. Þó er ljóst að allur ýviður er innbyrðis mjög skyldur. Sennilega var þetta allt saman ein tegund áður en ísöld gekk í garð. Þá einangruðust mismunandi stofnar vegna loftslagsbreytinga og vegna landreks. Sú einangrun mismunandi stofna getur hafa orðið fyrir hundruðum árþúsunda. Ef til vill skiptir ekki máli hvort við teljum þessa stofna tilheyra einni eða fleiri tegundum þótt mismunandi hópar hafa mismunandi einkenni. Það er í raun mannanna verk að ákveða hvar mörk tegunda liggja. Náttúrunni er slétt sama.

Víða í Evrópu má sjá mikið klipptan ývið. Þessi mynd er úr garðinum við Levens Hall sem á sér sína eigin Facebooksíðu og er myndin fengin þaðan.

Nafnið
Latneska heiti tegundarinnar er Taxus baccata L. Var það sænski grasafræðingurinn Carl Linnaeus sem gaf tegundinni þetta nafn árið 1753. Bókstafurinn L á eftir latínuheitinu á að upplýsa okkur um það. Merking ættkvíslarheitisins, Taxus, er nokkuð á reiki. Diana Wells (2010) gefur upp tvær tilgátur um uppruna heitisins í riti sínu Lives of the Trees. Báðar gera ráð fyrir að orðið sé komið úr grísku. Fyrri tilgátan er að nafnið merki eitur. Á sumum málum er talað um toxic sem eitur. Það passar ágætlega við það að ýviður er eitraður. Til forna nýttu Grikkir sér gjarnan eitur á örvarodda til að tryggja að þær væru banvænar. Eitur úr ývið var oft nýtt í þessum tilgangi og kölluðu Grikkirnir slíkar örvar toxicon.

Tilgáta númer tvö byggir á því að Grikkir nota orðið taxon yfir boga. Heitið Taxus getur því einfaldlega merkt bogviður. Nánar verður fjallað um fornar, grískar sögur um ývið í öðrum pistli.

Lowe nefnir í sínu riti um ývið frá árinu 1897 þessar tvær tilgátur og bætir við hinni þriðju. Hann segir að gríska orðið geti merkt að skipuleggja. Á þá heitið að vísa til þess hversu reglulega nálarnar raðast á sprotana. Þessa tilgátu er hvergi að finna í yngri heimildum.

Barrið á ýviðum raðast mjög reglulega á upprétta sprota. Hér er það japansýr, Taxus cuspidata. Mynd: Sig.A.

Viðurnefnið baccata merkir með berjum. Það er ekkert sérstaklega lýsandi fyrir tegundina því allur ýviður myndar einskonar ber í stað köngla. Hinum sænska Linnaeus hefur oft tekist betur til í nafngjöfum sínum heldur en með þetta viðurnefni.

Tré af ættkvíslinni eru, enn sem komið er, ekki mikið ræktuð hér á landi. Hér finnast samt fleiri tegundir en Taxus baccata. Þær verða að bíða frekari umfjöllunar nema hvað fáeinar myndir af öðrum ývið er að finna í þessari grein. Rétt er að geta þess að meðal garðyrkjuáhugamanna gengur ýviður gjarnan undir latínuheitinu og er einfaldlega kallaður Taxus.

Seinna munum við fjalla frekar um nöfnin sem tengjast þessari tegund. Við getum þó upplýst að þau eru mörg og eiga sér merka sögu.

Lýsing

Ýviður er sígrænt barrtré sem oftast hefur blágrænt eða dökkgrænt barr sem er mjúkt viðkomu. Til eru yrki með gulgrænum nálum. Barrið er að jafnaði kransstætt, sem merkir að það raðar sér nokkuð reglulega á sprotana. Myndar það oft einskonar spírala þegar það vex út úr greinunum. Á láréttum greinum sveigjast nálarnar aðeins í átt að ljósinu og myndar þá gjarnan tvær raðir út úr sprotunum. Lóðréttir sprotar eru aftur á móti alveg eins hvar sem á þá er litið. Á þeim sést betur þetta einkennandi spíralaform. Efra- og neðra borð barrsins er ekki alltaf eins. Er það stundum notað sem greiningaratriði til að greina í sundur tegundir eða nafngreind yrki.

Börkurinn er brúnleitur eða rauðbrúnn og flagnar auðveldlega með aldrinum.

Ýviðurinn ´David´ er einn af þessum sem hafa gult barr. Guli liturinn verður að jafnaði meira áberandi á björtum stöðum. Svo geta yrki, sem eiga að bera grænt barr, orðið dálítið gul af áburðarskorti. Mynd: Jakob Axel Axelsson.

Vöxtur
Ýviður vex hægt og rólega en getur orðið mjög gamall. Með tíð og tíma getur hann myndað nokkuð státin tré sem oft og tíðum verða mikil um sig ef ekki er þrengt of mikið að þeim. Á norðurhluta útbreiðslusvæðisins myndar hann aðeins lága runna eða einhvers konar beðjur í skjóli gamalla beyki- eða álmskóga. Þegar sunnar dregur getur hann orðið hærri. Suðlægari kvæmi hafa verið flutt norðar og mynda þá tré án vandkvæða (Hafsteinn 2016). Það gefur okkur, hér á Íslandi, góða von um að ýviði megi rækta meira en nú er gert og jafnvel fá hann til að mynda tré. Annars er Ísland eina landið í Evrópu þar sem ýviður vex ekki villtur. Þá undanskiljum við að vísu borgríki eins og Páfagarð.

Skemmtilega snúinn börkur á ývið í Cavandone á Ítalíu sem er um það bil 400 ára gamall. Myndina tók Antonio Ettore Biscuso og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.

 

Blómgun
Flest barrtré, sem ræktuð eru í skógum Íslands, tilheyra þallarætt eða Pinaceae. Sú ætt hefur það þannig að á hverju tré birtast bæði kven- og karlblóm á sama trénu. Ýviðurinn hefur annan hátt á, enda tilheyrir hann annarri ætt eins og áður er nefnt. Hvert tré er annað hvort karlkyns eða kvenkyns. Kallast það sérbýli. Blómgun á sér stað snemma á vorin. Karlblómin eru ljósgul og bera frjó sem berast þarf á kvenblómin. Aðeins kventrén bera aldin, eins og vænta má. Þau verða fullþroska á einu sumri. Sum yrki hafa náð að þroska aldin á Íslandi en aðeins ef bæði kyn eru til staðar.

Karlblóm á ývið í marsmánuði í Skotlandi. Í Lystigarðinum á Akureyri má sjá karlblóm núna í maí. Þau eru minna áberandi en þessi. Frjó ýviða eru sögð ofnæmisvaldandi. Mynd: Sig.A.

Sama tré og hér að ofan. Gulbrúna slikjan stafar af frjókornunum sem tréð framleiðir. Slæmar fréttir fyrir Skota með frjókornaofnæmi en góðar fréttir fyrir tilkippilegar kvenplöntur. Mynd: Sig.A.

Ekkert er samt svo einfalt að ekki megi flækja það með útskýringum. Þannig eru til stöku tré sem tilheyra báðum kynjum og sagnir eru til um ævagamla ýviði sem skipt hafa um kyn. Frægastur þessara ýviða stendur við fjörðinn Perth í bænum Fortingall í Skotlandi. Hann er eldgamall en lengst af var hann karlkyns. Nálægt aldamótunum fór hann allt í einu, öllum á óvart, að mynda aldin! Þeim hefur verið sáð af skoskum skógræktarmönnum og upp hafa vaxið fullkomlega eðlileg tré (Hafsteinn 2016). Þegar þetta gerist er það oftast þannig að ein og ein grein ber blóm af öðru kyni en restin af trénu. Sumir hafa gert að því skóna að þetta kunni að vera viðbrögð við einhverju stressi í umhverfinu eða áfalli sem tréð hafi orðið fyrir.

Hinn frægi kynskiptiýviður í kirkjugarðinum í bænum Fortengall. Myndin fengin héðan en hana tók Paul Hermans.

 

Fleiri dæmi eru þekkt um svona kynleiðréttingarferli. Yrkið ´Fastigiata´ er kvenkyns og hefur verið í ræktun í nokkrar aldir. Til eru sagnir frá Norwich um að þar hafi ein planta af þessu yrki tekið upp á því að framleiða karlblóm (Lowe 1897). Þetta hefur sá er þetta ritað ekki séð staðfest í yngri heimildum en samt má sjá að það er víðar en hjá mannfólkinu þar sem skilgreining á kynjum er ekki alltaf einföld.

Smellið hér til að lesa allan pistilinn.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga

  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Orðið hefur að samkomulagi að Akureyri.net birti hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00