Yfir 400 manns á Útgáfugleði í Sigluvík
Um helgina fer fram Útgáfugleði 2022 í Sigluvík á Svalbarðsströnd. Það eru hjónin Kristín S. Bjarnadóttir og Birgir Hauksson sem opna heimili sitt fyrir gestum og gangandi. Þar hafa hönnuðir ýmsan varning til sýnis og sölu tengdan jólunum og öllum öðrum árstíðum. Viðburðurinn hefur verið árlegur, þó með sínu augljósa hléi vegna heimsfaraldurs.
Útgáfugleði er viðburður sem varð til í kringum Blúndur og blóm; lítið fyrirtæki sem Kristín stofnaði, en hún hannar m.a. skipulagsdagatöl, afmælis- og barnadagatöl, jólakort, tækifæriskort, servéttur og margt fleira. Blúndu og blóma útgáfan byggir öll á ljósmyndum og textum Kristínar.
Jólailmur og jákvætt andrúmsloft
Í ár fagna Blúndur og blóm 10 ára afmæli með veglegri hönnunar- og handverkssýningu. Fjölmargir aðilar koma að viðburðinum og standa vaktina í Sigluvík með fjölbreyttan varning til sýnis og sölu. Hægt er að fá sér kaffi í boði Nýju kaffibrennslunnar og piparkökur í boði gestgjafanna.
Það sem af er helginni hafa rúmlega 400 manns lagt leið sína í Sigluvík, sem er 3,5 km. norðan við Vaðlaheiðagöngin, og enn streyma gestir að.