Vongóðir um að hefja leik á laugardag

Allar líkur eru á að úrslitakeppni Íslandsmóts karla í íshokkí, Toppdeildarinnar, geti hafist á laugardaginn, 5. apríl. Þetta kemur fram í frétt á vef Skautafélags Akureyrar. Úrslitakeppninni var sem kunnugt er frestað um viku vegna kærumála og óvissu um hver yrði mótherji SA í úrslitaeinvíginu á meðan kærumálið væri til umfjöllunar hjá áfrýjunardómstóli ÍSÍ.
Á vef SA segir að karlalið félagsins sé í óðaönn að undirbúa sig fyrir úrslitakeppnina og hafa meðal annars spilað æfingaleik til að halda sér á tánum, eins og þar segir. Liðið hefur nú fengið góðan tíma til undirbúnings og eru SA-ingar bjartsýnir á að fyrsti leikur geti farið fram á laugardaginn. Vitað er að hann verður spilaður á Akureyri og mun hefjast kl. 16:45 ef af verður – óvissan er hins vegar um það hvort það verður lið SR eða Fjölnis sem mætir norður.
Niðurstaða áfrýjunardómstóls ÍSÍ ætti „að liggja fyrir á allra næstu dögum,“ segir í fréttinni á sasport.is.