Fara í efni
Mannlíf

Vöfflufranskar – sjóðheit nýjung á Akureyri

Vöfflufranskar og fleira gott verður í boði á kaffihúsinu Fjaka í Amtsbókasafninu sem opnar á mánudag. Mynd: Fjaka Créperie

Á mánudaginn opnar nýtt kaffihús á Amtsbókasafninu á Akureyri. Þar verður boðið upp á ýmislegt girnilegt, m.a. vöfflufranskar sem er nýjung á Akureyri, ef ekki á Íslandi.

Það eru hjónin Slavko og Karin Španjol sem reka kaffihúsið en þau hafa síðan í vor rekið Fjaka Crépêrie veitingavagninn í miðbæ Akureyrar. Aðalsmerki kaffihússins verður crépes af ýmsum toga, eins og í matarvagninum.  Það er orðið langt síðan gestir Amtsbókasafnsins hafa getað sest niður á kaffihúsinu og fengið þar veitingar. Síðast var þar kaffihúsið Lestur og Bistro sem var rekið af eiganda Moe´s Food veitingavagnsins, en sú starfssemi lagðist af í september 2023 og húsnæðið hefur því staðið autt í rúmlega ár. Reksturinn hefur tvisvar verið boðinn út á tímabilinu. 

Nammi, namm. Vöfflufranskarnar eiga ábyggilega eftir að verða vinsælar hjá yngstu kynslóðinni. 

Vöfflufranskar sem dýft er í súkkulaði

Á kaffihúsinu verður líka boðið upp á vöfflufranskar, nýjung sem mun pottþétt falla vel í kramið hjá ungu kynslóðinni. Um er að ræða vöfflur í laginu eins og franskar sem er dyppað  í heita súkkulaðisósu. Franskarnar eru ekki djúpsteiktar heldur bakaðar á sama hátt og vöfflur. Hjónin hafa ekki séð þetta áður hér á Íslandi, en óhætt er að fullyrða að vöfflufranskarnar séu a.m.k nýjung á Akureyri.


Slavko er frá Króatíu og Karin frá Eistlandi. Þau hafa búið 9 ár á Íslandi og hafa gert Akureyri að heimili sínu.  Þau eru að hefja kaffihúsarekstur í Amtsbókasafninu en ár er síðan síðasti rekstaraðili hætti þar rekstri. 

Fundu ástina í Mývatnssveit

Slavko og Karin hafa búið á Íslandi í 9 ár. Þau komu upphaflega til Íslands í sitthvoru lagi til að vinna, hann frá Króatíu og hún frá Eistlandi. Ástin bankaði upp á í Vogafjósi í Mývatnssveit þar sem þau voru bæði að vinna og síðan þá hafa þau unnið á ýmsum veitingastöðum bæði í Reykjavík og Akureyri, t.d Sky restaurant, Bryggjan Brugghús og á Skógarböðin bistro.

Karin er með BA gráðu í ferðaþjónustu og veitingastjórnun en Slavko er menntaður matreiðslumaður. Áður en hann kom til Íslands hafði  Slavko unnið í hinum ýmsu löndum við fag sitt, til að mynda í Kína. Hann segist alltaf hafa heillast af kaldara loftslagi og kann því vel við sig á Íslandi. Við höfðum búið í Reykjavík í fjögur ár þegar covid skall á. Þá ákváðum við að flytja aftur norður því við höfðum alltaf kunnað vel við Akureyri og það var á Norðurlandinu sem við kynntumst, segir Slavko. Fjölskyldan, sem hefur komið sér vel fyrir á Eyrinni, telur nú fjóra því saman eiga þau tvær dæturnar Olivia 5 ára og Freja 3 ára.


Hafa rekið matarvagn í miðbænum

Síðasta vetur sáu hjónin matarvagn auglýstan til sölu á Vesturlandi og ákváðu að kaupa hann án þess að vera komin með stöðuleyfi fyrir honum, né nokkur nánari plön, því þeim  hafði lengi dreymt um að fara út í eigin rekstur. Úr varð að þau opnuðu matarvagn með crépes í miðbæ Akureyrar síðasta vor en ástæðan fyrir því að crépes varð fyrir valinu var einfaldlega sú að í vagninum voru öll tæki og tól til crépes gerðar. Og fyrir reyndan matreiðslumann eins og Slavko, var hann ekki lengi að aðlaga sig aðstæðum. Fyrir þá sem ekki þekkja crépes þá eru það stórar þunnar pönnukökur sem koma upprunalega frá Frakklandi. Það er hægt að borða þær sem máltíð eða sem eftirrétt, allt eftir því hvað er sett ofan á kökuna. 


Hjónin hafa rekið matarvagninn Fjaka Crépêrie  í miðbæ Akureyrar síðan í vor en þar hefur verið boðið upp á crépes af ýmsum toga með hágæða hráefni. Vagninn hefur nú lokað fyrir veturinn en aðdáendum er bent á nýtt kaffihús í Amtsbókasafninu. Nafnið Fjaka er tilvísun í orð á króatísku sem nær yfir þá vellíðunartilfinningu sem góður matur gefur manni. 

Crépes með rækjum vinsælt

Hjónin hafa bæði unnið í vagninum í sumar en hafa nú lokað honum fyrir veturinn, en reikna þó með því að opna hann einstaka sinnum yfir vetrarmánuðina t.d. á aðventunni. Aðspurð um vinsælustu crépes samsetningar sumarsins þá nefna þau annars vegar Rækjucrépes með íslenskum rækjum, parmesan, spínati, hvítlauk og sítrónusósu en þessi samsetning hefur verið sérlega vinsæl hjá heimamönnum. Þá hefur Nutella crépes afar vinsælt hjá krökkum en í því er hvítt súkkulaði, nutella, bananar og kornflex. Reikna þau með að bjóða upp á sama matseðil á kaffihúsinu og verið hefur í matarvagninum, auk einhverra nýjunga. Kaffihúsið verður opnað á mánudaginn og til að byrja með verður opið virka daga frá kl. 10 til 18. Við erum bara tvö í þessu og erum með tvö börn, við þurfum bara að sjá hvernig þetta spilast saman. Við byrjum rólega og bætum svo frekar í, segir Karin og vonar að fólk verði duglegt að koma til þeirra á Amtsbókasafnið í kaffi, crépes og vöfflufranskar. 

Crépes er hægt að útfæra á marga mismunandi vegu. Það getur verið heil máltíð eða sem eftirréttur. Á Fjaka kaffihúsinu á Amtbókasafninu verður hægt að fá ýmsar útgáfur.