Fara í efni
Fréttir

Vitringarnir þrír munu slá met í Hofi

Það lítur út fyrir að um 3500 manns muni mæta í Hof helgina 5.-8. desember til að sjá Vitringana, nýja jólasýningu með Friðriki Ómari og félögum.

Aldrei í sögu Menningarhússins Hofs á Akureyri hefur það gerst að sama skemmtidagskrá hafi verið flutt sjö sinnum á einni helgi. Það mun hins vegar gerast í desember þegar Vitringarnir stíga á svið 5.-8.desember. 

Þetta staðfestir Anna Heba Hreiðarsdóttir, miðasölustjóra MAK, en verið var að bæta sjöundu sýningunni af Vitringunum við. Sú sýning fer í sölu þann 19. september klukkan 10. Upphaflega fóru fimm sýningar í sölu í lok ágúst en fljótlega var sjöttu sýningunni bætt við vegna mikils áhuga og varð fljótlega uppselt á þær allar sex. Því var ákveðið að bæta þeirri sjöundu við. 

Sjálfstætt framhald af Heima um jólin

Um er að ræða nýja jólasýningu með Friðriki Ómari, Jógvan Hansen og Eyþóri Inga, en Friðrik Ómar sagði nánar frá henni sýningunni nýlega á Akureyri.net.

„Ég auðvitað vonaðist til að sá fjöldi fólks sem sótti Heima um jólin og fyrir mörgum var orðin ómissandi partur af aðventunni, myndi treysta manni fyrir þessu sjálfstæða framhaldi sem Vitringarnir eru og mæta. En mínir samstarfsmenn geta vottað það að ég spáði því að við yrðum með þrjá til fjóra viðburði þetta árið og myndum svo stækka vonandi út frá því. Ég hafði hreinlega rangt fyrir mér,“ segir Friðrik Ómar sáttur með viðtökurnar. 
 
Það eru rúmlega 14 ár síðan ég byrjaði að halda tónleika í Hofi og þetta hefur verið rosalegt ævintýri. Mikill fjöldi viðburða og ótrúlega margir gestir. Ég held þessu áfram meðan ástríðan er til staðar.
Rosalegt ævintýri í 14 ár
 
Aðspurður hvort hann sé ekkert hræddur um að þeir félagar gangi fram af sér með svona mörgum sýningum í röð segir hann svo ekki vera þar sem þessir sjöundu tónleikar lenda á fimmtudagskvöldinu. „Það hefur alltaf verið þannig að fyrsta tónleikadaginn erum við að taka jafnvel heilt tæknirennsli og svo tvö til þrjú show á sama degi. Núna komum við norður á fimmtudegi og höfum allan daginn og svo er bara ein sýning um kvöldið, tvær daginn þar á eftir og svo kemur þrennan á laugardeginum. Síðan sofum við út á sunnudeginum og klárum með kvöldtónleikum 8. desember,“ segir Friðrik Ómar og bætir við;  „Það eru rúmlega 14 ár síðan ég byrjaði að halda tónleika í Hofi og þetta hefur verið rosalegt ævintýri. Mikill fjöldi viðburða og ótrúlega margir gestir. Ég held þessu áfram meðan ástríðan er til staðar.“