Fréttir
Vínbúðin opnuð norðan Glerár í fyrramálið
03.03.2025 kl. 12:45

Vínbúðin verður opnuð í þessari nýbyggingu á Norðurtorgi í fyrramálið Mynd: Skapti Hallgrímsson
Vínbúð verður opnuð í verslunarkjarnanum Norðurtorgi klukkan 11.00 í fyrramálið. Þar með verður Áfengis- og tóbaksverslun ríksins einungis með starfsemi norðan Glerár á Akureyri – í póstnúmeri 603 – eftir að hafa höndlað með áfengi við Hólabraut í miðbænum í tæp 64 ár, því skellt verður í lás hinsta sinni við Hólabraut klukkan 18.00 í dag.
Húsnæðið við Hólabraut þótti ekki lengur hentugt og eins og akureyri.net greindi frá fyrir skemmstu þykir ekki fjárhagslegur grundvöllur fyrir því að reka tvær Vínbúðir á Akureyri, að mati forráðamanna Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, ÁTVR.