Fara í efni
Fréttir

Vínbúð opin í JMJ í dag – tímabundin tilraun

Kjartan Jósavinsson og Jón M. Ragnarsson galvaskir í verslun JMJ eldsnemma í morgun, tilbúnir að bregða á leik í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Vínbúð verður opnuð klukkan 10.00 fyrir hádegi í dag til prufu í Herradeild JMJ við Gránufélagsgötu á Akureyri. Vínbúðin var í áratugi handan götunnar en var lokað þegar ÁTVR opnaði nýja verslun á Norðurtorgi fyrir nokkrum vikum.

Fyrsti dagur aprílmánaðar þótti af ýmsum ástæðum heppilegur fyrir þessa nýstárlegu tilraun, segir Jón M. Ragnarsson, verslunarmaður í JMJ, og segir það velta á viðtökum fólks í dag hvort framhald verður á.

„Þetta er óvenjulegur dagur og upplagt að bregða á leik; það er ekki útilokað að við seljum áfengið með töluverðum afslætti í tilefni dagsins, að minnsta kosti fram að hádegi, og aldrei að vita nema eitt og eitt hálsbindi, jafnvel sixpensari, fylgi með í kaupbæti,“ segir Jón. Þeir félagar í JMJ eru þekktir fyrir léttleika og þjónustulund. 

Afsláttur í tilefni dagsins?

Margir hafa lýst yfir óánægju með að ÁTVR skuli ekki vera með aðra verslun í miðbænum, þar sem algengustu tegundir standi fólki til boða. Jón segir að síðan Vínbúðinni við Hólabraut var lokað hafi þeir félagar í JMJ nær daglega verið hvattir til þess að draga ÁTVR að landi, ef svo má segja, með þessari þjónustu við íbúa og starfsfólk í miðbænum, svo og þann fjölda ferðamanna sem þar drepur niður fæti á degi hverjum.

„Við sóttum því um leyfi til ÁTVR og Sýslumanns upp á von og óvon,“ sagði Jón þar sem þeir Kjartan Jósavinsson voru í óða önn að raða í hillur verslunarinnar um hálfátta leytið í morgun. „Ég átti satt að segja ekki von á að þetta gengi í gegn og var orðinn úrkula vonar, en hringt var í mig eldsnemma í morgun og tilkynnt að samþykkt hefði verið að veita tímabundið leyfi. Við hófumst strax handa við að stilla upp hér í búðinni og erum spenntir að sjá hverjar viðtökurnar verða. Það veltur algjörlega á því hverjar viðtökurnar verða hvort framhald verður á.“