Fara í efni
Pistlar

Vínartónleikar Emblu og hljómsveitar

Kvennakórinn Embla ásamt Salonghljómsveit Akureyrar. Gissur Páll Gissurarson tenór. Roar Kvam stjórnandi. Hamrar í Hofi, 8. janúar 2023.
_ _ _ 

Segja má að fullt hafi verið á Vínartónleikunum á sunnudaginn. Það var sérlega gaman að sjá hvað aðsókn að tónleikunum var frábær og undirtektir sýndu glögglega að mikill áhugi er á Akureyri fyrir Vínartónleikum á þessum árstíma. Það var líka gaman að sjá að flytjendur komu meira og minna úr héraðinu með frábærum viðauka tenór einsöngvarans Gissurs Páls sem fór á kostum með glæsilegum söng og góðri nærveru.

Undirritaður er ekki mjög hrifinn af nafninu „Salonghljómsveit“ en það er skandinavísk útgáfa af „Orchestre de Salon“ sem er franska og þýðir „Stofuhljómsveit“. Á fyrrihluta 20. aldarinnar voru slíkar míni sinfóníuhljómsveitir fastur liður í flestum leikhúsum og bíóhúsum heims og var heill her útsetjara sem vann að útgáfu á míkróútgáfum af öllum mögulegum tónverkum. Einhverntíma átti ég t.d. Pathetique Sinfóníu Tchaikovskis útsetta fyrir 10 manna band af þessu tagi! Fyrsta sinfóníuhljómsveit Íslands, Hljómsveit Akureyrar, var einmitt þesskonar hljómsveit og veitti Akureyringum snemma á 20. öldinni tækifæri til að hlýða á tónlist í lifanda lífi sem annars var bara hægt að heyra í útlöndum. Hljómurinn í svona bandi er talsvert öðruvísi í okkar eyrum og tekur smátíma að venjast en hefur sinn sjarma.

Þrekvirki Roars Kvam

Lítið af þessum útsetningum hefur varðveist í prentuðum nótum, og enn einu sinni hefur Roar Kvam unnið þvílíkt þrekvirki að útsetja alla dagskrána. Útsetningar hans voru eiginlega stórstjörnur kvöldsins og honum tókst að færa þessi tónverk, sem annars eru skrifuð fyrir stærstu gerð af sinfóníuhljómsveit, niður í svona „vasaútgáfu“ án þess að tapa glæsileika tónlistarinnar. Hljóðfæraleikararnir í hljómsveitinni, sem flestir voru af svæðinu, spiluðu oftast mjög vel, og náðu kjarna tónlistarinnar með glæsibrag. Sérstaklega ber þó að nefna selló, bassa og píanó sem spiluðu af festu og öryggi tónleikana í gegn.

Kvennakórinn Embla er hópur harðduglegra glæsikvenna og er kórinn agaður og mjög vel æfður. Mjúku og léttu kaflarnir hljómuðu dásamlega, en voðalega væri gaman ef aðeins fleiri söngdísir bæjarins kæmu til viðbótar inn í þennan hóp.

Hápunktur á tónleikunum var flutningurinn á Vín minna drauma, og var það endurtekið í lok tónleikanna, eitt af nokkrum uppklapps lögum.

Ein spurning vaknar hjá undirrituðum: Er endilega þörf á að hafa íslenskan texta? Hjá kórnum var erfitt að skilja. Hjá einsöngvaranum gekk það mun betur, en textarnir féllu misvel að tónunum og textahöfundar þurfa að hafa tilfinngu fyrir hvaða hljóð syngjast vel, ekki síst á erfiðustu stöðunum. Þá tilfinningu hafðir Þorsteinn Gylfason heitinn vinur minn í ríkum mæli, einn af textahöfundum kvöldsins en öðrum tókst ekki eins vel upp. Til dæmis er íslenska sérhljóðið „u“ ósönghæft með öllu og „i“ ber að forðast á öllum háum tónum.

Kostnaður

Þrátt fyrir svona fína aðsókn og vinnuna hans Roars við að útsetja fyrir svona „mínihljómsveit“ , er ég hræddur um að aðalkostnaðurinn við svona tónleika sé mun meiri en svo að þeir skili hagnaði. Ég er reyndar hræddur um að aðgangseyrir dugi ekki nema fyrir hluta kostnaðar við svona atburð og varla fæst verulegur styrkur úr samfélagssjóðum. Hamrar er frábær tónleikasalur, eins og Hamraborg, en menningarhúsið er að verða líkara skrímsli sem étur börnin sín en miðstöð fyrir grasrótina til að vaxa og dafna eins og lagt var upp með á sínum tíma. Það er hverfandi að norðlenskir tónlistarmenn leggi út í svona fyrirtæki nema um kassaskemmtun sé að ræða. Nokkrar kampavínsflöskur voru sprengdar af kórfélögunum uppá sviði en ekkert var í boði fyrir áheyrendurna þar sem veitingahúsið var lokað og ljósin slökkt. Heyrst hefur að sá rekstur muni verða lokaður til framtíðar eins og margur annar sem hefur hlotið sömu örlög í húsinu.

En það er aðkallandi að rekstur menningarhúsa verði með þeim hætti að ala upp, næra og hlúa að börnum sínum, ekki að éta og mergsjúga þau eins og örlög veitingahússins virðist vera.

Atburðir eins og Vínartónleikarnir eru lífsnauðsynlegir til að lyfta okkur upp úr svartnættinu og slabbinu. Svo heldur veislan áfram næsta laugardagskvöld: Nýjarstónleikar Sinfóníuhljómveitar Norðurlands!

Góðar stundir!

Hið kvenlega og ljóðræna keisaratré

Sigurður Arnarson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:30

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00