Fara í efni
Fréttir

Viltu rifja upp gömlu, „góðu“ beygjurnar?

Mynd af Facebook síðu Vaðlaheiðarganga.

Vakin er athygli á því á Facebook síðu Vaðlaheiðarganga að búið sé að opna gamla veginn yfir Vaðlaheiðina, veg 832, „sem er mjög gaman að fara ef fólk er ekki að flýta sér og vill njóta útsýnis og rifja upp gömlu tímanna þegar vegir voru brattir og með miklum beygjum,“ eins og segir þar.

Margir eiga örugglega góðar minningar af akstri yfir heiðina – að minnsta kosti minningar um fallegt útsýni – og hefðu gaman af því að skella sér gömlu leiðina. Einhverjar gera sér reyndar ferð yfir heiðina á hverju sumri til að rifja upp gamla tíð.

„Mikið dýralíf er að sjá á heiðinni og þetta er leið sem ætti að njóta en ekki þjóta, muna að stoppa og líta til baka. Rétt er að vekja athygli á merkingum Vegagerðarinnar en vegurinn er ekki ætlaður þyngri ökutækjum en 5 tonnum og 4x4. Nokkuð er um staka steina sem þarf að sneiða framhjá. Akstur yfir heiðina tekur ca. 30 mín. og er farið upp í 520 metra hæð með miklu útsýni yfir allann Eyjarfjörð. Árið 1985 var þjóðvegurinn færður út í Víkurskarð og hætt að mestu að nota gamla Vaðlaheiðarveginn,“ segir á Facebook Vaðlaheiðarganga.

Á síðu Vaðlaheiðarganga er skemmtileg myndasyrpa sem tekin var þegar starfsmaður ók gömlu leiðina, úr Fnjóskadal yfir í Eyjafjörð.