Fara í efni
Mannlíf

Viltu búa til búning fyrir öskudaginn?

Frá öskudeginum í fyrra, en hér hafa einhverjir meistarar búið til búninga sjálfir, sem er alltaf skemmtilegt og vekur lukku. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Öskudagurinn er handan við hornið, eða nánar tiltekið á miðvikudaginn næsta, 5. mars. Krakkar bæjarins hlakka oftast mikið til, en löng hefð er fyrir því að klæða sig upp í búning og fara í skipulögðum öskudagsliðum um bæinn til þess að syngja í fyrirtækjum og fá nammi eða annað gotterí fyrir. Flest eru kannski komin með búning og tilbúin í slaginn, en kannski eru ennþá einhver sem eiga erfitt með að ákveða sig, hvað á að vera á öskudaginn. Hér eru nokkrar hugmyndir að búningum sem hægt er að föndra saman heimavið án mikillar fyrirhafnar.

Pappakassabúningar

Áttu pappakassa? Það er hægt að búa til spil úr barninu, eða gera skemmtilega risaeðlu. Það þarf bara skæri, málningu og dass af fíflalátum til þess að búa til þessa búninga. Einnig er möguleiki að búa til legókubb. 

 

Gamall fatnaður öðlast nýtt líf á öskudaginn

Það væri hægt að búa til snjókarlinn Ólaf úr Frozen, með því að endurnýta hvíta hettupeysu í stærri kantinum. 

Gult efni eða gulur fatnaður er kannski ekki á hverju strái, en það væri gaman að velja saman 'emoji' eða 'tjákn' sem er hægt að búa til. Brúni kúkurinn er líka krúttlegur!

 

Litli þjófurinn er alltaf klassík. Svartar buxur og hvítur bolur með röndum. Ef hann finnst ekki, er hægt að útvega sér svart einangrunarlímband og búa rendurnar til á hvítan bol. Svört húfa og gríma sem er hægt að búa til úr pappa eða svörtu efni.

Köngulóarbúningur getur verið mjög skemmtilegur, en þá er barnið í öllu svörtu og svo geta götóttu sokkarnir hans pabba öðlast nýtt líf sem köngulóarfætur.

 

Pappi getur komið manni langt. Hægt er að búa til regnbogabarn og ís í brauði til dæmis. 

Ef barnið er vaxið upp úr sokkabuxunum væri hægt að búa til kolkrabbabúning! Kolkrabbinn gæti verið marglitur eða einlitur. 

Nytjamarkaðir bæjarins gætu lumað á heilum búningum eða einhverju sem vantar til þess að fullkomna heimagerða búninginn!

Gaman er að segja frá því að lokum, að Amtsbókasafnið leggur að venju sitt að mörkum til þess að styðja við endurnýtingu og býður upp á skiptimarkað á safninu á búningum. Hægt er að koma með þá búninga sem liggja heima í skáp ónotaðir og fá aðra í staðinn. Engin skylda er að koma með, það má líka bara þiggja. Hér er hlekkur á viðburðinn á Facebook. 

Heimildir:

https://www.rd.com/list/cheap-kid-halloween-costumes/https://www.pinterest.com