Vill deila salsa gleðinni með sem flestum
„Salsa dans hefur lengi verið mitt helsta áhugamál og ástríða og því hef ég oft leitt hugann að því hvernig ég gæti bætt úr þessu hérna norðan heiða svo ég þurfi ekki að gefa ástríðuna upp á bátinn eða einfaldlega pakka í töskur og flytja annað,“ segir Elísabet Ögn Jóhannsdóttir við Akureyri.net. Hún stofnaði Salsa North og lætur gamlan draum rætast í vikunni þegar fyrsta byrjendanámskeið hennar í salsa dansi hefst.
Hugmyndin um Salsa North hefur verið í bígerð ansi lengi, segir Elísabet Ögn. „Alveg síðan ég flutti til Akureyrar árið 2018 þá hefur mér fundist miður að geta ekki farið reglulega út að dansa salsa eins og ég gat gert þegar ég bjó í Reykjavík og erlendis,“ segir hún.
„Það var ekki fyrr en akkúrat núna árið 2023 sem tímasetningin er hárrétt og því læt ég til skarar skríða. Fyrsta byrjendanámskeiðið hjá Salsa North hefst núna 2. febrúar og verður hýst af Dansskóla Steps. Anaile Rojas vinkona mín sem er nýlega flutt til landsins frá Venezuela mun svo kenna með mér.“
Regluleg danskvöld
Námskeiðið mun standa í 10 vikur og byggir á salsa dansstíl sem er oft kenndur við Los Angeles, segir Elísabet. „Ástæðan fyrir því að LA stíllinn varð fyrir valinu er einfaldlega sá að það hafa verið regluleg salsa námskeið á Akureyri í kúbversku salsa í gegnum tíðina og því vildi ég koma með eitthvað alveg nýtt, þótt ég útiloki ekki að hafa dansnámskeið í kúbverskum stíl einhvern tíma síðar. Það eru nokkrir stílar í salsa dansi sem hægt er að læra en svo má auðvitað blanda þessu öllu saman á opnum danskvöldum.“
Opin danskvöld eru síðan mikilvægur liður í því að efla dansmenninguna frekar og það er einkar mikilvægt að þau séu opin öllum, segir Elísabet. Þannig smitist dansmenningin og gleðin sem víðast. „Um þessar mundir er ég að leita að stað á Akureyri sem væri til í að hýsa vikuleg salsa kvöld á virkum degi. Um leið og sú leit skilar árangri þá förum við af stað með danskvöldin.“
Að deila gleðinni
„Markmiðið með Salsa North er að vera sameiginlegur vettvangur fyrir fólk á Norðurlandi sem langar að njóta þess að dansa latneska dansa á sínum forsendum. Sumir vilja fá tækifæri til að vaxa sem dansarar, færa sig upp um getustig, læra ný spor og öðruvísi stíla. Aðrir vilja einfaldlega dilla sér í takt við suðræna músík í góðum félagsskap,“ segir Elísabet.
Auk þess að vilja koma á reglulegum danskvöldum, eins og hún nefndi, stefnir Elísabet að því að fá reglulega gestakennara að sunnan eða erlendis frá og vill geta boðið upp á fjölbreytt námskeið í mismunandi dönsum, stílum og getustigum. „En fyrst og fremst vil ég deila gleðinni með sem flestum og vona að sem flestir vilji koma og taka þátt í þessari uppbyggingu með mér, mig grunar nefnilega að það leynist fleiri dansarar hérna fyrir norðan en fólk grunar.“
Fékk ástríðuna í Mexíkó
Elísabet Ögn fékk ástríðu fyrir salsa á ferðlagi í Mexíkó árið 2005. „Ég hafði æft ballet í 5 ár sem barn og færði mig síðar yfir í samkvæmisdans þar sem ég fann mína sönnu ástríðu fyrir latneskum dönsum. Ég æfði og keppti í samkvæmisdansi næstu 5 árin eða þar til unglingsárin skullu á og ég flosnaði upp úr dansinum. En ég hef alla tíð séð eftir að hafa hætt í samkvæmisdansinum en salsa og argentískur tango fylltu í skarðið næstu árin. Ég ferðaðist víða á mínum yngri árum og lærði tango í Argentínu, fór á ýmis salsa námskeið og sótti dansklúbba bæði þegar ég dvaldi í Chile og þegar ég bjó um skeið í Dublin,“ segir Elísabet.
„Ég fann mig svo fullkomlega hjá Salsa Iceland og dansaði með þeim á tímabili og sótti ýmis námskeið hjá þeim. Ég fór svo aftur á flakk í skiptinám til Spánar og síðar í meistaranám til Danmerkur. Dansinn fór aftast í forgangsröðunina og eftir að við settumst að á Akureyri árið 2018 þá hefur mig langað að setja dansinn í hæsta forgang og byggja upp öflugt danssamfélag á Norðurlandi. Það er svo loksins núna sem tíminn er réttur og Salsa North varð til.“