Fara í efni
Fréttir

Vilji til samstarfs eða sameiningar

Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs Akureyrar, segist svo sannarlega vona að ekki komi til þess að Iðnaðarsafninu á Akureyri verði lokað. Hún segir að skv. safnastefnu Akureyrarbæjar sé vilji til samstarfs við Minjansafnið, jafnvel sameiningar.

Eins og Akureyri.net greindi frá í gær sendi stjórn Iðnaðarsafnsins öllum bæjarfulltrúum harðort bréf þess efnis að ef ekki kæmi til 7,5 milljóna króna framlag sveitarfélagsins til rekstrar safnsins á þessu ár yrði því lokað 1. mars.  Þar sagði einnig að Hollvinasamtök safnsins muni þá einnig hætta starfsemi, safngripum í eigu annarra sem varðveittir eru á safninu verði skilað og „lyklavöld og safnið í heild sinni verður afhent Minjasafninu á Akureyri eins og segir í stofnskrá Iðnaðarsafnsins dags. 15. janúar 2004.“

Skoðum í stærra samhengi

„Bærinn hefur í gegnum tíðina lagt Iðnaðarsafninu til húsnæði án endurgjalds og nokkurn fjárhagsstuðning þar fyrir utan, en þrátt fyrir það hefur Iðnaðarsafnið átt í erfiðleikum í rekstri undanfarin ár og kominn tími til að skoða þetta í stærra samhengi,“ sagði Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs, við Akureyri.net í dag. „Við erum því að skoða með hvaða hætti bærinn getur komið að rekstri Iðnaðarsafnsins og þá verið að horfa til þess sem kemur fram í safnastefnu bæjarins en í henni kemur fram vilji til þess að samstarf á milli Minjasafnsins og Iðnaðarsafnsins verði aukinn til muna og jafnvel að þau verði sameinuð.“

Halla segist ekki finna annað en að öllum bæjarfulltrúum „sé umhugað um að haldið verði utan um þennan mikilvæga hluta sögu Akureyrar og telji að finna þurfi lausn til frambúðar.“ Hún nefnir að í safnastefnu bæjarins sé sérstakleg tekið fram „að mikilvægt sé að Akureyrarbær styðji við varðveislu og sýnileika iðnaðarsögunnar. Spurningin er þá bara hvernig það verður best gert. Bæjarráð fundaði á dögunum með forsvarsmönnum [Iðnaðar]safnsins og mun í byrjun febrúar funda með aðilum frá Minjasafninu. Ég vonast til að þessi vinna skili niðurstöðu sem allir geta sætt sig við.“

Fé vegna mögulegrar sameiningar

Skilningur stjórnar Iðnaðarsafnsins var sá, að því er sagði í áðurnefndu bréfi, að safnið fengi á árinu 7,5 milljónir til reksturs þar sem upphæðin var nefnd í safnastefnu bæjarins, og var stjórnin afar óánægð að sú reyndist ekki raunin. Halla segir að umrædd upphæð hafi ekki verið hugsað til rekstrar Iðnaðarsafnsins heldur mögulegrar sameiningar þess og Minjasafnsins.

Í GÆRBærinn leggi fram 7,5 milljónir ella verði Iðnaðarsafninu lokað