Fara í efni
Fréttir

Vilja ræða fjárfestingar KEA og væntingar

Aðalfundur KEA, sem haldinn var í gærkvöldi, skoraði á stjórn fjárfestingafélagsins að boða til fulltrúafundar hið fyrsta til að ræða fjárfestingar félagsins, væntingar og tækifæri, eins og það var orðað í tillögu sem samþykkt var með yfirgnæfandi meirihluta þeirra tæplega 100 fulltrúa sem sátu fundinn.

Bankabókaleiðin?

Einn fundarmanna, Birkir Baldvinsson, sté í pontu og gagnrýndi fjárfestingarstefnu KEA, ekki síst hugmyndir um leggja fram mikið fé til nýs sparisjóðs enda hefði rekstur sparisjóða gengið illa í mörg ár. Hann hvatti til þess að hætt yrði við þær áætlanir. 

Birkir nefndi að jafnvel væri réttast fyrir KEA að fara bankabókaleiðina, sem hann kallaði svo: að hætt yrði að hugsa um sparisjóði, losað yrði um óskráðar eignir á þremur til fimm árum, yfirbygging félagsins yrði minnkuð og eignir KEA settar í virka stýringu hjá þriðja aðila. Félagið myndi svo vinna að því að efla nærumhverfið og einbeita sér að nýsköpun.

Bar saman KEA og KS

Birkir bar saman þróun mála hjá KEA annars vegar og Kaupfélagi Skagfirðinga (KS) hins vegar síðustu tæpa tvo áratugi. Talaði um stóru kaupfélögin tvö við Tröllaskaga.

Hann nefndi eftirfarandi:

  • Árið 2004 var eigið fé KEA rúmir 4 milljarðar króna
  • Á sama tíma var eigið fé KS rúmir 3,3 milljarðar
  • Eigið fé KEA í árslok 2021 var 8,9 milljarðar
  • Eigið fé KS í árslok 2021 var 47,9 milljarðar
  • Arðsemi eigin fjár hjá KEA á þessum tíma er 6,14%
  • Arðsemi eigin fjár KS er á sama tíma 74%

Stjórn boði til fundar

Birkir lagði fram tillögu þar sem skorað var á stjórn að boða til fulltrúafundar hið fyrsta „til að ræða fyrirhugaðar fjárfestingar í sparisjóðum, væntingar um ávöxtun fjárfestingarinnar og samanburð fyrir önnur fjárfestingatækifæri,“ en samþykkt var breytingatillaga Láru Stefánsdóttur þar sem sparisjóðir voru ekki nefndir heldur skorað á stjórn KEA að „að boða til fulltrúafundar hið fyrsta og í síðasta lagi fyrir 29. september 2023 til að ræða fjárfestingar KEA, væntingar og tækifæri. Jafnframt skal ræða aðrar tillögur er koma fram 14 dögum fyrir boðaðan fund.“

Hagnaður 546 milljónir í fyrra

Hagnaður af rekstri KEA á síðasta ári var 546 milljónir króna að því er fram kom á fundinum.

Í tilkynningu sem birtist á vef KEA í dag segir meðal annars:

  • Hreinar fjárfestingatekjur voru 767 milljónir og lækkuðu um 175 milljónir á milli ára.
  • Eigið fé var tæpir 8,8 milljarðar og heildareignir námu tæpum 9,1 milljarði. Fjárhagsstaða félagsins er sterk.
  • Eftir sölu á 67% eignarhlut í Tækifæri hf. var lausafjárstaða félagsins óvenju há á árinu en ávöxtunarvalkostir lausafjár voru lítt arðgefandi á síðasta ári vegna erfiðra skilyrða á verðbréfamörkuðum.
  • Fjárfest var á árinu í nýsköpunarfyrirtækjunum Mýsköpun og hinu Norðlenzka Styrjufélagi. Jafnframt var fjárfest í Niceair.
  • Þrátt fyrir litla arðsemi af lausu fé var arðsemi af fjárfestingafasteignum viðunandi og heilt yfir gekk fyrirtækjum sem KEA á eignarhluti í ágætlega og afkoma af þeim eignaflokki viðunandi þó svo töluverður breytileiki hafi verið í afkomuþróun einstakra fyrirtækja.
  • Áfram er unnið að því að endurfjárfesta það lausafé sem fékkst við söluna á Tækifæri hf. í upphafi ársins.

Kosið var um þrjá stjórnarmenn á fundinum í gær. Sjö buðu sig fram en kjöri náðu: Hildur Ösp Gylfadóttir, Pétur Snæbjörnsson og Kristinn Rúnar Tryggvason.